Innlent

Forseti lýðveldisins verndari Samtakanna ´78: „Þetta er ómetanlegt“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands,er verndari Samtakanna ´78.
Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands,er verndari Samtakanna ´78. Fréttablaðið/Eyþór
Eliza Reid, forsetafrú, tilkynnti á hátíðarkvöldverði Samtakanna ´78 að Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, hefði ákveðið að gerast verndari samtakanna. Í kvöld var blásið til hátíðarkvöldverðar af því tilefni að samtökin eru 40 ára.

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, segir að ákvörðun Guðna hafi ómetanlegt gildi fyrir sig.

„Hefði einhver sagt árið 1978 að forseti lýðveldisins ætlaði að vera verndari samtakanna hefðu ýmsir aðilar leyft sér að segja ýmislegt.“

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, fagnar ákvörðun Guðna.Samtökin '78
Í samtali við fréttastofu segir Daníel að Guðni hafi ekki þurft að hugsa sig tvisvar um. „Hann vildi verða verndari félags alls hinsegins fólks og það er ómetanlegt. Ég get ekki sagt neitt annað en ómetanlegt, það er bara þannig,“ segir Daníel sem er fagnar afmælinu með félagsmönnum í Iðnó.

Eliza Reid, forsetafrú, sagði frá því að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, væri nú verndari samtakanna.GeiriX
Felix Bergsson er kynnir kvöldsins og á meðan á borðhaldi stendur verður fjölbreyttur hópur skemmtikrafta sem stíga á svið. Dragsúgur, Margrét Erla Maack, Bergþór Pálsson, Bláskjár, Bjartmar Þórðarson, Karen Björg og fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×