Innlent

Söngvari The Hefners sér eftir notkun „blackface“ og biðst afsökunar

Sylvía Hall skrifar
Birgir Sævarsson, söngvari hljómsveitarinnar, segir að The Hefners muni ekki koma aftur fram með „blackface“.
Birgir Sævarsson, söngvari hljómsveitarinnar, segir að The Hefners muni ekki koma aftur fram með „blackface“.
Birgir Sævarsson, söngvari hljómsveitarinnar The Hefners, hefur birt nýja færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir umræðu síðasta sólarhrings hafa verið upplýsandi og hafi orðið til þess að hann hafi skipt um skoðun á notkun „blackface“. 

Umræðan beinist að færslu Kristins Óla Haraldssonar, betur þekktur sem Króli, en þar vakti hann athygli á því að hljómsveitin kæmi fram með svo kallað „blackface“ gervi, en slíkt hefur verið afar umdeilt og þykir bera vott um fordóma í garð fólks með dökkt litarhaft.

Sjá einnig: Búið að benda aftur og aftur á að „blackface“ er niðrandi

Í upphafi sagði hljómsveitin að gervið tengdist ekki kynþáttahatri og þætti miður að fólk túlki sýninguna þeirra sem einhvers konar kynþáttafordóma.

Í nýjustu færslu Birgis segir hann að í kjölfar þeirrar umræðu sem varð út frá færslu rapparans Króla hafi hann skipt um skoðun á notkun „blackface“. Það sé nú hans persónulega skoðun að það hafi verið ónærgætið og vanhugsað af hans hálfu og hann fagnar umræðunni, sem hafi fært hann að þessari niðurstöðu.

„Ég hef sem sagt breytt um skoðun, það er það fallega við skoðanir, maður getur breytt þeim.“

Hann biður þá sem tóku notkun gervisins nærri sér afsökunar og segir það aldrei of seint að sjá að sér. Hann segir fólk vera betur upplýst nú en í gær um þessi mál og staðfestir að The Hefners munu ekki aftur koma fram með dökkan farða héðan í frá. 

Birgir hvetur þá fólk til þess að halda umræðunni málefnalegri og segir persónuleg skítköst ekki eiga heima í umræðunni, hvorki á bæjarfélagið, hljómsveitina eða Króla. Hann tekur ítrekar fyrri orð sín að hatur og illska sé fjarri því sem hljómsveitin standi fyrir. 








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×