Maðurinn sem leitað var að á Fjallabaki, norðan Torfajökuls, fannst í nótt - heill á húfi. Greint var frá því í gærkvöldi að næstum 200 björgunarsveitarmenn hafi verið kallaðir út eftir að boð bárust frá neyðarsendi mannsins.
Staðsetning boðanna reyndist vera nokkuð óljós og ekki bætti slæmt veður á svæðinu úr skák.
Maðurinn, sem var erlendur ferðamaður, fannst svo í nótt í Jökulgili, sem gengur í átt að Torfajökli frá Landmannalaugum. Hann var einn á ferð og hélt sig í tjaldi. Hann var blautur og hrakinn en talið er að hann hefði vafalaust geta orðið ofkældur ef hann hefði ekki getað búið um sig í tjaldinu.
Verið er að fylgja manninum til byggða af björgunarsveitarmönnum, sem buðust til að bera farangur hans.
