Þetta kom fram á fundi bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði. Hún lýsir yfir miklum vonbrigðum með það að framkvæmdir við Reykjanesbraut séu ekki enn hafnar og að ekki sé gert ráð fyrir þeim í nýjustu útboðsverkefnum Vegagerðarinnar. Bæjarstjórnin fer þess á leit við Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra að hann gefi skýringu á þessu.
„Mikil fjölgun ferðamanna á undanförnum árum sem fara í gegnum Leifsstöð er fordæmalaus. Sú staðreynd ásamt mikilli fjölgun íbúa á Reykjanesi og í Hafnarfirði hefur leitt til þess að umferð um Reykjanesbraut hefur margfaldast. Þetta álag á einfalda brautina í gegnum Hafnarfjörð hefur leitt til mikilla umferðartafa á þeim kafla og sífellt fleiri slysa. Er því ljóst að ekki er hægt að bíða lengur með að ráðast í tvöföldun hennar á þeim kafla,“ kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórninni.
Í bréfi Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, til samgönguráðherra lýsir hún yfir áhyggjum sínum af umferðaröryggi. „Alkunna er alvarlegt ástand vegkaflans, slys eru þar tíð og umferðarþungi gríðarlegur.“

„Auðvitað á gagnrýnin engan rétt á sér, per se, en ég skil alveg pirring manna yfir því að það sé ekki allt í gangi heima hjá sér,“ sagði Sigurður.