Skoðun

Hver er ábyrgð okkar í loftslagsmálum?

Ásbjörn Björgvinsson skrifar
Víða er enn verið að moka skurði og framræsa votlendi. Það er skiljanlegt þegar bú eru að stækka og bændur vilja hafa ræktarlöndin sem næst búunum en víða eru skurðir sem þjóna ekki lengur neinum tilgangi. Undanfarna áratugi hafa verið grafnir skurðir út um allt land, áætluð heildarlengd þeirra er um 34.000 km. Aðeins um 15% af því landi sem búið er að ræsa fram með þessum hætti er í beinni landbúnaðarnotkun í dag auk þeirra svæða sem nýtt eru sem beitarlönd. Stærstan hluta þeirrar losunar á CO2 sem Ísland telur fram til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna má rekja til framræslu votlendis.

Votlendið sem þurrkað hefur verið upp er að losa gríðarlegt magn koltvísýrings, CO2 ,á hverjum degi. Þegar vatnið lækkar hefst niðurbrot gamalla gróðurleifa í mónum. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar hérlendis á losun frá framræstu votlendi og búið er að reikna út af sérfræðingum Landbúnaðarháskólans að losunin nemi um 20 tonnum af CO2 á hektara að meðaltali og er það í samræmi við rannsóknir sem gerðar hafa verið í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi.

Þetta er stóra samfélagsverkefnið okkar!

Votlendissjóðurinn vill endurheimta votlendi á þeim svæðum sem ekki eru lengur í beinni landbúnaðar­notkun til að stöðva losun á CO2 með einföldum og varanlegum hætti. Ábyrgð okkar er mikil því áhrif losunar er farin að valda búsifjum víða í heiminum. Við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar með endurheimt votlendis á Íslandi. Við skorum á landeigendur, bændur og alla sem vilja sýna samfélagslega ábyrgð að hafa samband við okkur til að bjóða fram skurði sem ekki þjóna lengur neinum tilgangi svo hægt verði að loka þeim og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×