Innlent

Gríðarlegar hækkanir á framlögum til þróunaraðstoðar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Utanríkisráðherra segir framlög Íslands til þróunaraðstoðar hafa aukist gríðarlega undanfarin ár. Hann leggur til að þau verði 0,35 prósent af vergum þjóðartekjum árið 2022. Ekki sé raunhæft að verða við markmiði Sameinuðu þjóðanna um að hlutfallið verði 0,7% fyrir þann tíma.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur kallað eftir samráði um tillögu til þingsályktunar um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019 til 2023 á samráðsgátt stjórnvalda.

Það er ástæða fyrir því að við settum þetta í þennan farveg. Almenningur getur haft áhrif á þetta. Það þarf ekki að gera það en við vildum gera það vegna þess að við viljum að sem flestir komi að þessu,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir helstu breytinguna nú vera að gert sé ráð fyrir að framlögin sem voru í ár 0,28% af vergum þjóðartekjum hækki og verði orðin 0,35% árið 2022. Ekki hafi verið raunhæft að verða við markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% af þjóðartekjum.

„Við höfum hækkað þetta gríðarlega á undanförnum árum. Bara frá 2013 til 2017 er þetta hækkun úr 4,2 milljörðum á ári í 7,2. Mér er til efs að einhver ríkisútgjöld hafi hækkað hlutfallslega jafn mikið. Ég tel að það sé nú skynsamlegt að vera með sígandi lukku í þessu og gera þetta jafnt og þétt.“

Með breytingunni ná Íslendingar rétt yfir meðtaltal OECD ríkjanna eins og það var 2017. En eru enn langaftastir Norðurlandaþjóða í framlögum. Guðlaugur segir brýnt að læra af þeim þjóðum.

„Það sem að ég legg áherslu á í þessu er að við lærum af Norðurlöndunum, ekki bara hvað snýr að upphæðunum heldur líks hvernig þeir hafa unnið þessa hluti. Það er engin ástæða til þessað finna upp hjólið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×