Innlent

Segja RÚV leigja út búnað á verulegu undirboði

Sylvía Hall skrifar
GN Studios segja RÚV bjóða upp á verð sem sé nærri ómögulegt fyrir einkaaðila að keppa við.
GN Studios segja RÚV bjóða upp á verð sem sé nærri ómögulegt fyrir einkaaðila að keppa við. Vísir/Ernir
Samkeppnisyfirlitinu hefur borist kvörtun frá fyrirtækinu GN Studios ehf., sem heldur utan um rekstur kvikmyndaþorpsins í Gufunesi, vegna útleigu RÚV á tækjabúnaði og aðstöðu til framleiðslu á kvikmynda- og sjónvarpsefni. Þá hafa tækjaleigurnar Exton og Kukl lýst yfir stuðningi við kvörtunina, en RÚV er sagt leigja út búnað og aðstöðu á miklu undirboði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í bréfi til Samkeppniseftirlitsins sem vitnað er í segja GN Studios að útleiga á aðstöðu til framleiðslu á kvikmynda- og sjónvarpsefni sé ein mikilvægasta tekjulind fyrirtækisins á meðan uppbyggingu kvikmyndaþorpsins stendur og vilji þeir gæta þess að samkeppni í þeim efnum fari fram á jafningjagrundvelli en RÚV bjóði upp á sambærilega þjónustu á verði sem sé nærri ómögulegt fyrir einkaaðila að keppa við.

Í stefnu RÚV frá árinu 2017 kom fram að sjónvarps- og kvikmyndastúdíó, ásamt hljóðverum og annarri tækniaðstöðu, yrði gerð aðgengileg til leigu fyrir fyrir aðra framleiðendur og var einingin RÚV-stúdíó stofnuð í kringum þessa útleigu.

Þá vísa GN Studios til 44 gr. samkeppnislaga frá árinu 2005 og segja starfsemina hafa skaðleg áhrif á samkeppni og fela í sér opinberar samkeppnishömlur. Einnig er sett spurningamerki við eininguna RÚV-stúdíó, en í lögum um Ríkisútvarpið frá árinu 2013 segir að RÚV skuli stofna og reka dótturfélög fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er um í lögum, en GN Studios segja RÚV-stúdíó svipa meira til einingar en dótturfélags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×