Skoðun

Loftslagsmál - Máttur grasrótarinnar

Guðrún Schmidt skrifar
Það er fagnaðarefni að umræðan um loftslagsmál og umhverfismál hefur aukist undanfarið. Ýmsar góðar hugleiðingar og stefnur eru í umræðu en mikilvægt er að nálgast áætlun um minnkun á kolefnisspori á viðtækari hátt en oft er rætt um núna. Sérstaklega verðum við að horfa til þess að aðgerðir í loftslagsmálum þurfa að rúmast innan markmiða um sjálfbæra þróun.

Neysludrifið samfélag á kostnað annarra

Réttlæti innan og milli kynslóða er eitt af aðaleinkennum sjálfbærrar þróunar og einmitt það markmið virðist varla vera með í umræðunni. Það má ekki gleymast að við í vestrænum heimi lifum að hluta á kostnað annara landa, þeirra auðlinda og íbúa. Lífstill, hagkerfi og kröfur um að eiga sem mest og best og allt helst sem ódýrast leiðir m.a. til arðráns fátækra landa.  Hagnaður hnattræna kapítalismans verður til að hluta í gegnum og vegna arðráns, mannréttindabrota og eyðileggingar náttúrunnar.

Rannsóknir hérlendis hafa sýnt fram á það að við Íslendingar tilheyrum hópi neyslufrekustu þjóða heims (sjá t.d. https://skemman.is/bitstream/1946/5384/1/Vistspor%20%C3%8Dslands.pdf) og að neysludrifið kolefnisspor íslenskra heimila er áþekkt því sem gerist meðal þjóða Evrópusambandsins, þrátt fyrir notkun okkar á svokölluðum grænum orkugjöfum. Það er þó enn verra að við færum ábyrgð á kolefnisspori vegna eigin neyslu yfir á fátæku löndin. Á Íslandi kemur um 71% útblásturs heimila til vegna innfluttra vara og er útblástursbyrðin þá að mestu í þróunarríkjum (sjá https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0959652617318267). Það er tálsýn og ákveðin hroki að halda því fram að við í vestrænu löndunum getum minnkað kolefnisspor okkar eingöngu með því að draga úr útblæstri eigins lands á meðan við aukum jafnvel hnattræna fótsporið með aukinni neyslu á innfluttum vörum.

Aðgerðir í loftslagsmálum eiga ekki eingöngu að snúast um tölur í viðurkenndu bókhaldskerfi heldur um heildstæðar, réttlætismiðaðar og siðferðislegar breytingar sem miða að því að minnka kolefnisspor hnattrænt. Með þessum orðum er á engan hátt verið að gera lítið úr þeim mjög mikilvægu aðgerðum og áætlunum sem eru nú þegar á borði ríkisins í loftslagsmálum heldur einungis bent á viðtækari nálgun. Til að skila árangri og svara ákalli Sameinuðu þjóðanna þarf róttækar breytingar á lifnaðarháttum í anda sjálfbærrar þróunar. Við erum ekki að reyna að sporna gegn hlýnun jarðar til að bjarga ímynd heldur til að bjarga jörðinni!

Nægjusemi er dyggð

Það er kominn tími til að endurskilgreina kjarnagildin okkar og huga betur að siðferðisvitundinni. Gildi eins og kærleikur, réttlæti, virðing, þakklæti, samkennd og nægjusemi eru vegvísar í átt að sjálfbærri þróun.

Við þurfum að hlúa að kærleikanum sem temur okkur að hugsa ekki eingöngu um eigin hag heldur annarra, einnig næstu kynslóða og svo náttúrunnar sem við erum hluti af. Kærleikur og samkennd sem af sprettur ætti að hafa þannig áhrif að okkur væri ekki sama um það við hvaða kringumstæður eða á kostnað hvers snjallsíminn, peysan eða súkkulaðið okkar er framleitt.  Við þurfum nauðsynlega að efla réttlætiskenndina sem býr í okkur öllum til þess að breyta neysluvenjum og hætta að lifa á kostnað annara.

Það er ekki langt síðan að horft var á nægjusemi sem eina af höfuðdyggðunum hér á landi en nú er oft sett samasemmerki milli nægjusemi og nísku. Slíkri hugsun þarf að breyta. Nægjusemi er m.a. skilyrði sjálfbærrar þróunar og lykil forsenda þess að hægt sé að minnka vistspor okkar. Hún felst í því að geta notið lífsins, óháð eignum, að fækka löngunum og þurfa minna til að líða vel. Við þurfum ekki nýjasta snjallsímann, stærsta bílinn, stöðugt ný föt, útlensk jarðarber á veturna, ost og kjöt frá útlöndum, svo fáein dæmi séu nefnd.

Breytt gildi og nægjusemi þarf svo að endurspeglast í hagkerfi, regluverki og stjórnmálum okkar.

Máttur grasrótarinnar

Við höfum tilhneigingu til þess að bíða eftir aðgerðum stjórnvalda og tæknilegum lausnum í loftslagsmálum og áttum okkur ekki almennilega á því að við sjálf erum hluti af vandamálunum en getum einnig orðið hluti af lausnunum.

Við, hvert og eitt, berum ábyrgð og getum gert svo margt. Við getum hætt sóun, minnkað neyslu okkar og fækkað athöfnum sem kosta mikla losun gróðurhúsaloftstegunda, t.d. flug- og bílferðum. Þær vörur sem við neytum og kaupum þurfum við að velja eftir framleiðsluháttum og áhrifum á umhverfi og velferð dýra, ferðalagi vörunnar frá upprunastað og réttlæti gagnvart starfsmönnunum. Betri upplýsingar um þessa þætti fyrir einstakar vörur og athafnir gætu hjálpað mikið við ákvarðanatöku í daglegu lifi. Einnig mætti gefa út æskilegt árlegt kolefnishámark fyrir einstaklinga til að hvetja almenning til að fylgjast náið með og minnka kolefnisspor sitt.

Breyting á lífstíl, neyslu og gildum hjá hverjum og einum er góður upphafspunktur fyrir nauðsynlegum kerfisbreytingum. Þar kemur grasrótin sterk inn. Máttur grasrótar getur verið mikill ef við stöndum saman að settu markmiði. Öflug umræða grasrótarinnar getur myndað nauðsynlegan þrýsting á stjórnmálamenn til að fara í alvöru aðgerðir. Sérhver grasrótarhreyfing sem þróar umhverfisvænni og réttlátari valmöguleika gegn ríkjandi mynstri framleiðslu, neyslu og lífsstíls hjálpar til. Þetta má t.d. glögglega sjá í myndun og þróun á ýmsum samtökum og aðgerðum víðsvegar um landið undanfarið eins og t.d. gegn matarsóun og plastnotkun.

Við getum lifað góðu lifi án þess að valda svona miklum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Með lítilli en áhrifamikilli hugarfarsbreytingu má líta á minnkaða og meðvitaða neyslu sem tækifæri til að styrkja okkur sem einstaklinga. Tækifæri til að koma okkur út úr hamstrahjóli neysluhyggjunnar og skapa okkur önnur lífsmarkmið en að eiga sem mest og best. Lífsmarkmið með kærleika, þakklæti og samkennd að leiðarljósi. Skammsýni er ekki lengur í boði. Við þurfum langtíma framtíðarsýn í átt að sjálfbærri þróun. Við getum þetta ef við viljum!

Höfundur er náttúrufræðingur og master í menntun til sjálfbærni.




Skoðun

Sjá meira


×