Innlent

Fimm nýjar íbúðir á dag

Höskuldur Kári Schram skrifar
Um hundrað og fimmtíu nýjar íbúðir eru nú settar í sölu í hverjum mánuði en framboð á nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu hefur nærri tvöfaldast á undanförnum fimm árum. Hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði telur þó ólíklegt að aukið framboð skili sér í lækkandi húsnæðisverði.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs um stöðuna á húsnæðismarkaði. Framboð á nýbyggingum hefur aukist verulega á þessu ári og þá hefur eftirspurn aukist að sama skapi.

„Frá árinu 2013 og fram á mitt ár í fyrra þá voru í kringum fimmtíu til hundrað nýjar íbúðir settar í sölu hér á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði. En síðan þá hefur þessi fjöldi aukist og nú eru um 150 nýjar íbúðir sem eru settar í sölu í hverjum mánuði sem er í kringum 18 prósent af öllum íbúðum sem eru settar í sölu hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ólafur Heiðar Helgason hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.

Ólafur segir að dregið hafi verulega úr sölutíma nýbyggðra íbúða þrátt fyrir að þær séu almennt dýrari í fermetrum talið en eldri íbúðir. Hann segir þó ólíklegt að þetta aukna framboð muni hafa veruleg áhrif á þróun húsnæðisverðs á næstu misserum.

„Íbúðaverð hefur hækkað mikið hér á landi á undanförnum árum. Við sjáum að íbúðaverð hefur hækkað um 43 prósent umfram almennt verðlag frá upphafi árs 2015. Það er mun meiri hækkun en á hinum Norðurlöndunum. Næst koma Danmörk og Svíþjóð með um 14 prósenta hækkun á sama tímabili. Við teljum að þessar miklu hækkanir endurspegli að miklu leyti bætt efnahagsástand og lækkandi vexti en líka þann mikla skort á íbúðum sem er á markaði.  þess vegna er ánægulegt að sjá nýbyggingum fjölga svona mikið,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×