Lífið

Keppa á heimsmeistaramóti eftir að hafa æft saman í tvo mánuði

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Hanna Rún og Sigurður Már á æfingu.
Hanna Rún og Sigurður Már á æfingu. Aðsend
Hanna Rún Bazev Óladóttir og Sigurður Már Atlason halda út til Póllands eftir viku til þess að keppa á heimsmeistaramótinu í 10 samkvæmisdönsum. Þau eru ekki vön að dansa saman en fyrirkomulagið kemur til vegna tíðra ferðalaga Nikita, eiginmanns Hönnu Rúnar. Þau ákváðu að slá til og skrá sig til keppni á heimsmeistaramótinu þrátt fyrir að hafa aðeins æft saman í tvo mánuði.

„Nikita maðurinn minn er að ferðast svo rosalega mikið og þá getum við lítið æft á meðan þannig ég hafði samband við Sigga. Við erum búin að þekkjast svo lengi og það er eini strákurinn sem ég gæti hugsað mér að dansa við annan en manninn minn. Annars væri ég bara ein að æfa mig. Þannig ég bara hafði samband við Sigga og spurði hvort að hann vildi ekki æfa með mér og hann var alveg til í það,“ segir Hanna Rún.

Mikil viðbrigði

Sigurður Már dansar aftur á móti bæði latin og ballroom dansa en Hanna Rún hefur ekki dansað ballroom dansa í 10 ár og það eru því mikil viðbrigði fyrir hana. Latin dansar eru cha cha cha, jive, samba, rúmba og paso doble. Ballroom dansar eru vals, foxtrott, quickstep, vínarvals og tangó.

„Ég dansaði 10 dansa fyrir tíu árum en hætti því 2008 en er bara búin að dansa latin dansa síðan. En af því að Siggi dansar bæði þá stakk maðurinn minn uppá því að við myndum prófa að dansa bæði. Svo fær maður oft einhverja klikkaðar hugmyndir og ég hugsaði hvenær ætli heimsmeistaramótið í tíu dönsum sé og þá var bara einn og hálfur mánuður í það. Og ég hugsaði bara af hverju ekki? Þannig að við bara skráðum okkur á mótið og erum bara búin að vera að æfa á fullu,“ segir Hanna Rún.

Hanna segir það mikil viðbrigði fyrir sig að fara úr því að dansa bara latin dansa yfir í að dansa bæði og hún hafi fengið mikla hjálp frá fagaðilum, sjúkraþjálfurum og læknum til þess að vera í standi.

Hanna Rún segir að hún og Siggi séu vel stemmd og ætli að hafa gaman af þessu ævintýri. 

„Ég er náttúrulega með keppnisskap og við erum búin að æfa alveg ógeðslega mikið. En við náttúrulega förum út og gerum okkar besta og höfum bara gaman. Svo verður maður bara að sjá hvernig gengur. Við erum mjög vel stemmd og ég er bara á fullu að skreyta nýju keppniskjólanna og mamma og systur mínar hjálpa mér,“ segir Hanna Rún.

 


Tengdar fréttir

Bergþór brá sér í gervi málara í quickstep

Bergþór Pálsson brá sér í gervi málara síðasta sunnudag í Allir geta dansað. Þar dönsuðu Bergþór og Hanna Rún Quickstep við lagið Putting on the Ritz með The Pasadena Roof Orchestra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×