Innlent

Maðurinn sem leitað var að við Helgafell fundinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Vísir/Ernir
Ferðamaðurinn sem björgunarsveitarmenn leituðu að í kvöld fannst rétt fyrir klukkan ellefu. Það var hópur björgunarsveitarmanna frá Reykjavík sem fann manninn. Hann var orðinn mjög kaldur þegar komið var að honum og útveguðu björgunarsveitarmenn honum hlýrri föt og er nú verið að meta hvernig honum verður komið til byggða.

Útkallið barst um klukkan tíu í kvöld en þá var tilkynnt um erlendan ferðamann sem hafði hringt í Neyðarlínuna og greint frá því að hann væri villtur og rataði ekki til byggða. Var maðurinn á gangi á upplandi Hafnarfjarðar, í grennd við Helgafell. Hann gat ómögulegt sagt til um hvar hann var staddur en komið myrkur. Sagðist hann ekki treysta sér til að halda för sinni áfram og sagðist vera kaldur og hrakinn.

Tugir björgunarsveitarmanna af suðvesturhorni landsins voru ræstir út, meðal annars björgunarsveitarmenn sem voru við æfingar á Reykjanesbraut. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út og til skoðunar að notast við hitamyndavél við leit að manninum.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 22:57.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×