Innlent

Kerecis er handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands 2018

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Starfsfólk Kerecis veitti verðlaununum viðtöku á Nýsköpunarþingi 2018 í dag.
Starfsfólk Kerecis veitti verðlaununum viðtöku á Nýsköpunarþingi 2018 í dag. Vísir
Fyrirtækið Kerecis er handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands 2018 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi sem fram fór á Grand hótel í dag. Kerecis þróar vörur sem tengjast húð- og vefjaviðgerðum úr náttúrulegum efnum, meðal annars úr þorskroði. Fyrirtækið hefur einkaleyfi í yfir 50 löndum og hjá því starfa yfir 50 manns.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Kerecis hafi þróað „framúrskarandi afurð sem hafi alla burð til að ná árangri á markaði á næstu árum.“ Þá hafi fyrirtækið fengið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum, meðal Vaxtarsprota ársins 2017 sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi. „Samhliða aukinni markaðssetningu hefur störfum hjá fyrirtækinu fjölgað hratt og þar starfa núna yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu,“ segir ennfremur í rökstuðningi dómnefndar.

Höfuðstöðvar fyrirtækisins og framleiðsla eru á Ísafirði en það hóf rekstur fyrir átta árum. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ráðherra ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunar. Verðlaunagripurinn í ár er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir myndhöggvarann Hallstein Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×