Innlent

Hreyfðar kistuleifar fundust nærri Landsímareitnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Lindarvatn hyggur á byggingu hótels á Landssímareitnum en framkvæmdir hófust fyrr á árinu.
Lindarvatn hyggur á byggingu hótels á Landssímareitnum en framkvæmdir hófust fyrr á árinu. vísir/vilhelm
Hreyfðar kistuleifar fundust nærri framkvæmdasvæðinu við Landsímareitinn í miðborg Reykjavíkur í gær. Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur sem hefur haft umsjón með rannsókn á þessu svæði, segir í samtali við Vísi að leifarnar hafi fundist við framkvæmdaeftirlit vegna þess að framkvæmdir á byggingu á Landsímareitnum eru að hefjast.

Þegar gamlar lagnir voru skoðaðar komu í ljós kistuleifar og voru framkvæmdir stöðvaðar á því svæði. Í frétt Morgunblaðsins af fundinum kom fram að líkkista hefði fundist undir Landsímahúsinu. Vala segir það ekki rétt heldur fundust leifarnar fyrir utan Landsímareitinn og kistuleifarnar líklegast frá framkvæmdinni árið 1967.

Vala segir þetta hafa verið kistuleifar í hreyfðum lögum, sem þýðir að búið er að hreyfa leifarnar, en engin bein hafi fundist.

Hún segir að þessi hreyfðu lög verði teiknuð upp og skrásett á morgun og framkvæmdir stöðvaðar á því svæði þar til búið verður að rannsaka og kortleggja þann hluta sem kistuleifarnar fundust. Verið var að skipta út ljósleiðara og setja nýjan á þessu svæði sem er nærri Landsímareitnum. Málið hafi því með Mílu, Veitur og Gagnaveituna að gera, en ekki verktakafyrirtækið Lindarvatn sem sér um framkvæmdir á Landsímareitnum þar sem stendur til að reisa hótel. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×