Innlent

Komið til móts við óskir SÁÁ um aukin framlög í fjárlagafrumvarpi

Heimir Már Pétursson skrifar
Komið verður til móts við óskir SÁÁ um auknar fjárveitingar á næsta ári sem og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni samkvæmt tillögum meirihlutans í fjárlaganefnd.

Þá verða fjárveitingar til byggingaframkvæmda á Landsspítalanum og skrifstofu Alþingis minnkaðar og minna fer til að hækkunar framlaga til öryrkja en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Heildarafkoma ríkissjóðs batnar um 700 milljónir króna samkvæmt tillögum einstakra ráðuneyta. Tekjur aukast um 400 milljónir og útgjöld lækka í heildina um 300 milljónir.

Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar segir minni framlög til öryrkja skýrast af því að tillögur um leiðréttingu þeirra mála hafi ekki að fullu komið fram fyrir næsta ár. Vísir/Vilhelm
Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar segir minni framlög til öryrkja skýrast af því að tillögur um leiðréttingu þeirra mála hafi ekki að fullu komið fram fyrir næsta ár. Framlög til málaflokksins áttu samkvæmt fjárlagafrumvarpi að aukast um fjóra miljarða en verða lækkuð um 1,1 milljarð. 

Þá seinkar byggingaframkvæmdum við meðferðarkjarnan á Landsspítalanum og við nýja skrifstofubyggingu Alþingis og þar með lækka framlögin til þessarra bygginga.

Mest af breytingunum helgast af aukinni verðbólgu og að krónan hefur gefið eftir gagnvart öðrum gjaldmiðlum að sögn Willum Þors, SÁÁ hafði óskað eftir auknum framlögum upp á 250 milljónir króna en þau verða hækkuð um tæpar 180 milljónir. Þá fara aukin framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni aðallega til endurnýjunar á tækjabúnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×