Skoðun

Dómur er fallinn – en hvað svo?

Andrés Magnússon skrifar
Eins og öllum er enn í fersku minni komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, með dómi sínum þann 11. október sl., að innflutningstakmarkanir á fersku kjöti feli í sér vísvitandi og alvarlegt brot gegn EES-skuldbindingum ríkisins, eins og fram kemur í héraðsdómi sem staðfestur var af Hæstarétti, og séu því með öllu ólögmætar. Þar með var komin endanleg niðurstaða fyrir dómstólum í baráttu Samtaka verslunar og þjónustu sem staðið hafði í rúmlega sjö ár.

Þrátt fyrir þessa skýru og ótvíræðu niðurstöðu Hæstaréttar, og EFTA-dómstólsins þar áður, er ekki að merkja að neinn asi sé, hvorki á ríkisstjórn né Alþingi, að bregðast við og breyta löggjöfinni til samræmis við niðurstöðu dómsins og þjóðréttarlegar skyldur ríkisins. Samkvæmt fréttatilkynningu sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér sama dag og dómur gekk, er stefnt að því að mæla fyrir slíku frumvarpi á Alþingi í febrúar nk.!

Þessi dráttur á viðbrögðum af hálfu stjórnvalda vekur mikla undrun. Fyrir það fyrsta hafa stjórnvöld haft yfrið nægan tíma til að undirbúa viðbrögð við þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Það voru allt frá upphafi yfirgnæfandi líkur á að dómur í þessu máli yrði á þann veg sem raunin varð. Í öðru lagi er nauðsynlegt að benda á þá staðreynd að frá og með uppsögu dómsins er það ólögmæt aðgerð að gera ferskt og ófrosið kjöt upptækt við innflutning til landsins. Upptaka kjötsins í tolli hefur beinlínis í för með sér skaðabótaábyrgð fyrir ríkissjóð á öllu því tjóni sem innflytjendur verða fyrir við slíka aðgerð.

Þetta er einmitt það sem er að gerast. Nú þegar hefur a.m.k. ein sending af þýsku lífrænt ræktuðu nautakjöti verið gerð upptæk við innflutning til landsins. Allar líkur eru á að þær verði fleiri á næstunni, vindi stjórnvöld ekki bráðan bug að því að koma í gegn nauðsynlegri lagabreytingu. Stóra spurningin er því þessi: Ætla stjórnvöld að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan löglega innflutt kjöt er gert upptækt í tolli með tilheyrandi skaðabótaábyrgð fyrir ríkissjóð?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×