Dagur sauðkindarinnar var nýlega haldin hátíðlegur á vegum sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum við Hellu. Kristinn Hákonarson á Fákaflöt í Landeyjum mætti með fjárhundinn Pólar sem er Border colle til að sýna gestum sýningarinnar hvernig hann vinnur með Pólar þegar hann er að reka fé.

Pólar er átta ára gamall hundur, fluttur inn frá Englandi og er mjög góður fjárhundur, sérstaklega í fjöllum.
Kristinn segir að góðir fjárhundur gefist aldrei upp og geti í raun unnið allan sólarhringinn. Á sýningunni sást að kindurnar hika ekki að fara í hundinn ef svo ber undir.
„Já, þessar kindur eru náttúrulega algjörlega ótamdar og hlýða því hundi ekki vel en ef við erum með kindur sem eru tamdar þá hlýða þær hundinum mjög vel“, bætir Kristinn við og tekur að auki fram að góður smalahundur sé á við marga menn í vinnu og því sé nauðsynlegt fyrir fjárbændur með stærri bú að vera með fleiri en ein og fleiri en tvo hunda.

„Ég segi að Border collie sé hundur, allar aðrar hundategundir eru feyk, ég held að Border Collie sé eini hundurinn sem geti leyst þetta“