Skoðun

Átak í kvikmyndagerð

Ágúst Guðmundsson skrifar
Það er óhætt að tala um sérstakt blómaskeið í íslenskum kvikmyndum. Íslenskur leikstjóri hlýtur Norðurlandaverðlaunin fyrir báðar sínar fyrstu bíómyndir, myndir annarra vekja einnig verðskuldaða athygli og hljóta alls kyns viðurkenningar víða um heim. Ef við værum að tala um fótbolta, þá stæði þjóðin á öndinni af stolti yfir sínu fólki.

Nú ætla ég ekki að detta í þann pytt að fara að níða niður íþróttirnar til að upphefja listirnar. Þvert á móti er einkar ánægjulegt að geta státað af afreksfólki á ólíkum sviðum. Hér finnst mér hins vegar komið ærið tilefni til að stórefla kvikmyndasjóð í því augnamiði að gera Ísland að raunverulegum þátttakanda í hinum alþjóðlega kvikmyndaheimi.

Fyrirmynd okkar gæti verið Danmörk, sem hefur margoft lagt umtalsverða fjármuni í átak í kvikmynda- og sjónvarpsmyndagerð. Tvennt stendur þar upp úr: í fyrra skiptið var útkoman Dogma, í seinna skiptið leiddi það til sjónvarpsþátta sem nú ganga undir enska heitinu „Scandinavian noir“. Almennt er stuðningur mikill við danska kvikmyndagerð, sem mótast meðal annars af sterkum vilja til að dönsk börn alist upp við myndefni þar sem talað er móðurmálið.

Í okkar litla landi þar sem enskan sækir stöðugt á er ekki síður þörf á kvikmyndum á móðurmálinu. Nú ætla ég ekki að detta í þann pytt að fara að níða niður enskuna til að upphefja íslenskuna. Framgangur heimstungunnar er tímanna tákn, börn okkar munu tileinka sér enskuna, hvað sem tautar og raular. Það má þó ekki gerast á kostnað íslenskunnar. Einmitt þess vegna er mikilvægt að stórefla innlenda framleiðslu á gæðaefni fyrir alla aldurshópa. Það er gert með meðvituðum hætti annars staðar á Norðurlöndum, og það eigum við líka að gera hér.

Íslenskir framleiðendur hafa sótt mikið fé í fjölþjóðlega sjóði. Það geta þeir ekki gert nema fyrst komi til innlendur stuðningur. Framlag frá Kvikmyndamiðstöð er forsenda þess að hægt sé að efna til samstarfs við önnur lönd um íslenskar bíómyndir. Nú bíða allmörg verkefni þess að fá að hefja þetta ferli fjármögnunar. Sjóðurinn er einfaldlega ekki nógu öflugur til að hleypa öllum þeim verkefnum af stað sem hlotið hafa gæðastimpil stofnunarinnar. Höfum við efni á að láta þau tækifæri að engu verða?

Næst á eftir Eyjafjallajökli eru kvikmyndir besta kynning á landi og þjóð sem völ er á. Þjónusta við erlendar kvikmyndir hefur reynst heilmikil búbót, m.a. fyrir ríkiskassann. Á öllum sviðum kvikmyndagerðar eru Íslendingar að skapa sér nafn úti í heimi, klipparar, tökumenn, tónskáld, leikstjórar og leikarar, svo eitthvað sé nefnt. Opinbert fé sem fer í kvikmyndagerð er ekki ölmusa heldur skynsamleg fjárfesting sem borgar sig.

Stundum fara landar okkar offari í ákefð sinni og athafnagleði. Hér er engin hætta á slíku slysi. Hér er allt til reiðu fyrir stórátak í íslenskri kvikmyndagerð. Látum á það reyna!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×