Tónlist

Hljómsveitin Hatari lýkur störfum um áramótin

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Matthías Tryggvi, söngvari Hatara, á tónleikum.
Matthías Tryggvi, söngvari Hatara, á tónleikum. Fréttablaðið/Laufey
Hljómsveitin Hatari, sem hefur átt mikilli velgengni að fagna síðan hún kom fyrst fram á sjónarsviðið með iðnaðar-teknó með póli­tískum oddi og afar líflega sviðsframkomu, hefur tilkynnt að hún muni „láta af störfum“ eins og það er orðað í tilkynningu frá sveitinni. Í tilkynningunni kemur fram að síðasta verk Hatara sé að halda tónleika á Húrra 28. desember næstkomandi. Einnig fylgir tilkynningunni nýtt lag, Spillingardans.

„Verðlaunahljómsveitin Hatari lýkur störfum frá og með áramótum. Stjórn Svikamyllu ehf. ályktaði um starfslok sveitarinnar á aðalfundi félagsins fyrr í þessum mánuði. Ljóst er að neytendur sem ekki tryggja sér miða á síðustu tónleika sveitarinnar, Endalok á Húrra þann 28. desember næstkomandi, munu aldrei aftur líta hana augum, enda dómsdagur í nánd. Þá verður nýútkomið myndband sveitarinnar við lagið Spillingardans, hennar síðasta tilraun til að knésetja gangverk fjármagnsins. Rekstur hljómsveitarinnar reyndist ekki standa undir væntingum stjórnarmeðlima og verður listamönnum Hatara formlega afhent uppsagnarbréf þann 24. desem­ber næstkomandi.“

Meðlimir Hatara voru þekktir fyrir BDSM-legan klæðnað sem þeir komu ávallt fram í og gríðarlega leikræna tjáningu í tónlistarflutningi sínum. Þetta vakti mikla lukku og útnefndi Reykjavík Grapevine sveitina til dæmis bestu tónleikasveit ársins tvö ár í röð og erlendir miðlar eins og Line of Best Fit héldu vart vatni yfir frammistöðu Hatara á Airwaves-hátíðinni, þannig að það má alveg segja að þessi tíðindi komi á óvart. Ástæður þess að sveitin leggur nú upp laupana er samkvæmt tilkynningunni:

„Aðstæður á markaði [eru] slíkar að rekstur Hatara uppfyllir ekki arðsemiskröfur stjórnarinnar að svo stöddu. Þá er ljóst að markmið sveitarinnar um að afhjúpa linnulausa svikamyllu hversdagsleikans náðist ekki á tilsettum tíma.“

„Þegar ég frétti að Hatari væri að hætta svelgdist mér á, ég held ég hafi borðað fjóra hamborgara sama kvöld til að reyna að fylla í tómið sem mér fannst fréttirnar skilja eftir sig. Íslenskt tónlistarlíf verður aldrei samt,“ segir Gauti Þeyr, einnig þekktur sem Emmsjé Gauti, um þá ákvörðun Hatara að taka brátt pokann sinn.

„Íslensk dægurmenning var ekki tilbúin fyrir Hatara og ekki að ástæðulausu. Fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er,“ segir Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri og menningarrýnir. „Með fæðingu og dauða Hatara var sleginn tónn sem mun óma undir dulvitund íslensks tónlistarlífs um ókomna tíð. Megi þessi dagur rata á spjöld sögunnar sem sá allra versti hingað til,“ segir Andrea Sigríður Jónsdóttir útvarpskona í tilefni fréttanna.

Undir tilkynninguna skrifar stjórn Svikamyllu ehf. og tekið er fram að nánari upplýsingar verði ekki veittar að svo stöddu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.