Handbolti

Viðbúið að frammistaðan sé misstöðug

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði alls níu mörk á Gjensidige Cup, æfingamótinu í Noregi, og gaf sex stoðsendingar. Selfyssingurinn knái er á leiðinni á sitt þriðja stórmót á ferlinum.
Ómar Ingi Magnússon skoraði alls níu mörk á Gjensidige Cup, æfingamótinu í Noregi, og gaf sex stoðsendingar. Selfyssingurinn knái er á leiðinni á sitt þriðja stórmót á ferlinum. Fréttablaðið/Ernir
Ísland vann tvo fjögurra marka sigra á Brasilíu og Hollandi í síðustu tveimur leikjum sínum á Gjensidige Cup, æfingamóti í Noregi sem lauk í gær. Þetta voru jafnframt síðustu leikir íslenska liðsins fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í vikunni. Íslenska liðið lenti í 2. sæti á Gjensidige Cup með fjögur stig, eftir sigur á Brasilíu og Hollandi og tap fyrir Noregi á fimmtudaginn.

Ísland hafði allan tímann undirtökin í leikjum helgarinnar. Íslendingar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik gegn Brössum, 17-13, og sami munur var á liðunum í leikslok, 33-29. Hraðaupphlaupin gengu sérstaklega vel í leiknum og skiluðu mörgum mörkum. Guðjón Valur Sigurðsson naut sín vel og skoraði sjö mörk. Ómar Ingi Magnússon og Arnór Þór Gunnarsson skoruðu fjögur mörk hvor.

Íslendingar spiluðu mjög sterka vörn gegn Hollendingum í gær og héldu þeim í aðeins 23 mörkum. Ísland var alltaf með frumkvæðið en munurinn á liðunum var aldrei mikill. Á endanum vannst þó fjögurra marka sigur, 27-23. Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur Íslendinga með sjö mörk. Bjarki Már Elísson, sem var kallaður inn í íslenska hópinn fyrir leikina gegn Brasilíu og Hollandi, skoraði fjögur mörk.

„Eins og gengur var ég ánægður með sumt og annað ekki,“ sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Gegn Hollandi komu tveir stuttir kaflar þar sem vörnin hélt ekki nógu vel en annars var hún sterk. Mér fannst vörnin líka góð megnið af tímanum gegn Noregi og líka gegn Brasilíu. Sóknarleikurinn var misgóður. Hann var erfiður í dag [í gær],“ sagði Guðmundur en hollenskir lærisveinar Erlings Richards­sonar léku framliggjandi vörn í leiknum.

Guðmundur hrósaði sínum mönnum fyrir frammistöðuna gegn Brasilíu á laugardaginn. „Ég var mjög sáttur með leikinn gegn mjög frambærilegu liði Brasilíu. Það var góður leikur af okkar hálfu. Mér fannst leikurinn gegn Noregi í sjálfu sér líka góður og mér fannst við eiga svo mikið inni þar.“

Guðmundur ítrekar að íslenska liðið sé ungt og enn í mótun. „Við erum í þeirri stöðu, ég er búinn að segja það áður og verð að segja það aftur, að vera með nýtt lið í mótun. Þá er viðbúið að leikur liðsins sé ekki alltaf stöðugur. Svona er staðan í dag. Það er ákveðnar breytingar farnar af stað. Það eru fullt af atriðum sem við þurfum að bæta. Við vitum af þeim og vinnum í þeim.“

Undirbúningur íslenska liðsins hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Guðjón Valur varð t.a.m. fyrir hnjaski í leiknum í gær. Að sögn Guðmundar kemur það betur í ljós eftir skoðun í dag hvers eðlis meiðsli fyrirliðans eru.

„Þetta hefur ekki verið óskaundirbúningur hvað þetta varðar. En þeir sem hafa komið inn hafa staðið sig vel,“ sagði Guðmundur en þrír leikmenn sem voru í 20 manna æfingahópnum léku ekkert með á mótinu í Noregi. Arnar Freyr Arnarsson og Sigvaldi Guðjónsson vegna meiðsla og Stefán Rafn Sigurmannsson vegna veikinda.

„Það var ákveðið að hvíla Sigvalda alveg um helgina en hann verður með á æfingunni á morgun [í dag]. Vonin var að hann myndi jafna sig á þremur dögum og það virðist vera að ganga eftir. Stefán Rafn er enn að jafna sig. Hann hefur líklega fengið inflúensu og tekur tíma að jafna sig á því,“ sagði Guðmundur. Arnar Freyr nefbrotnaði í leik með Kristianstad fyrir HM en Guðmundur er vongóður að hann verði klár fyrir leikinn gegn Króatíu á föstudaginn.

„Arnar Freyr hefur æft mjög vel sjálfur. Það er búið að smíða á hann andlitsgrímu sem hann getur æft með en hann má ekki spila með hana. Menn trúa því að hann verði klár í fyrsta leik. Það eru enn ákveðin spurningarmerki hvað þessa hluti varðar en við verðum að fá svar við þeim í síðasta lagi á þriðjudaginn,“ sagði Guðmundur en hann tilkynnir HM-hópinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×