Skoðun

Tvítugu Vinstri græn: Vernda eða sökkva?

Elías Svavar Kristinsson skrifar
Í Árneshreppi ræður nú ríkjum að því er virst gæti, alræðisstjórn fimm harðsvíraðra virkjunarsinna, undir forystu oddvita sem til skamms tíma taldi sig „umhverfissinna” og tók á árum áður þátt í prófkjöri Vinstri grænna og er nú skráð sem einn af sveitarstjórnarfulltrúum þeirra. Einn í þessari sveitarstjórn hefur raunar átt heima í Reykjavík öll sín fullorðinsár, en það er önnur saga.

Við sem eigum lögheimili, gerum út trillu, stundum dúntekju, eigum fasteignir og borgum okkar skatta í Árneshreppi höldum að fólkinu sem tók við völdum þar síðasta sumar geti ekki verið sjálfrátt, heldur hljóti að vera óttalegir fífuvettlingar, eins og sagt var á Seljanesi í gamla daga.

Allt gengur útá að liðka til fyrir fyrirtæki í meirihlutaeigu kanadískra og svissneskra auðhringa svo það geti byggt virkjun sem bætir einmitt ekki raforkuöryggi Vestfjarða. Þeir sem ekki hallast að þessum skoðunum flýja sveitina og nú er svo komið að 12, já tólf manns hafa þar vetursetu og eru að meðaltali á ellilífeyrisaldri.

Þau eru, svo öllu sé til skila haldið, fimm bændur á fjórum bæjum, þar af einn á níræðisaldri, einn traktorsviðgerðarmaður, annar veðurathugunarmaður og nokkrir ellilífeyrisþegar. Og svo hótelstjórinn og tengdamóðir hans, hóteleigandinn í Djúpavík. Hún er oddviti hreppsnefndarinnar.

Oddviti þessi sagði í þætti á Stöð 2 í vikunni að virkjun myndi bjarga byggðinni. Hún var ekki beðin um að útskýra það neitt sérstaklega, en hún veit alveg að rekstur virkjunar býður ekki uppá eitt einasta starf í Árneshreppi. Það er af því virkjun yrði stýrt úr fjarlægð, úr höfuðstöðvum HS Orku væntanlega, og þær eru á Suðurnesjum. Vegir búa ekki til búsetu.

Auðvitað fengi hótel oddvitans ágætan bisness á meðan starfsmannaleigur hefðu her manna á svæðinu við að skera í sundur víðernin, stífla þrjár ár og sökkva öræfunum á nokkrum árum og kannski fækkaði ekki nema um þá sem hrykkju uppaf. En hvað svo?

Samkvæmt útreikningum á vegum HS Orku fengi sveitarsjóður nettó 7 milljónir, já heilar sjö íslenskra króna í fasteignargjöld af stöðvarhúsi virkjunar. Bent hefur verið á að bólginn sveitarsjóður (ef svo væri) gagnist ekki samfélagi sem flutt hefur burtu. Til hvers eru þá refirnir skornir?

Getum við, sem eigum heima í Árneshreppi, höfum alist þar upp og unnum landinu fengið afstöðu ráðamanna hins tvítuga flokks sem kennir sig við umhverfisvernd og leiðir ríkisstjórn Íslands til hugmynda um að skera víðernin á Ströndum? Er þetta bara „í ferli”? Ráða ráðherrar nákvæmlega engu, þrátt fyrir titilinn? Er flokksfélögum virkilega alveg sama, bara ef flokkurinn hangir í ríkisstjórn? 

Höfundur er stýrimaður og býr á Dröngum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×