Enski boltinn

PSG tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Rennes eftir að hafa verið 2-0 yfir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Rennes fagna.
Leikmenn Rennes fagna. vísir/getty
Rennes er bikarmeistari í Frakklandi eftir sigur á PSG í vítaspyrnukeppni en PSG komst í 2-0 í leiknum. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2014 sem PSG vinnur ekki bikarinn.

Það stefndi flest í stórsigur PSG sem tók forystuna strax á þrettándu mínútu með marki Dani Alves. Átta mínútum síðar tvöfaldaði Neymar forystuna og staðan 2-0.

Rennes komst inn í leikinn fimm mínútum fyrir hlé er Presnel Kimpembe varð fyrir því óláni að skora í eigið net. Staðan 2-1 í hálfleik.

Á 66. mínútu jöfnuðu Rennes en markið skoraði Mexer og því þurfti að framlengja. Ekkert mark var skorað í framlengingunni en Kylian Mbappe fékk rautt spjald undir lok hennar.

Mbappe varð orðinn vel pirraður og fékk réttlætilegt rautt spjald eftir glórulausa tæklingu á Damien da Silva. Því þurfti PSG að fara í vítaspyrnukeppnina án Mbappe.

Fyrstu ellefu vítin fóru í netið en það var svo Christoper Nkunku sem klúðraði fyrir PSG og Rennes fagnaði sigri. Nkunku hafði komið inn á undir lok framlengarinnar til þess að taka víti.

Þetta þýðir að PSG vinnur einungis einn titil á tímabilinu. Mikil vonbrigði þar á bænum en þeir höfðu unnið franska bikarinn fjögur ár í röð. Þetta var í fyrsta skipti síðan 1971 sem Rennes vinnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×