Innlent

Köldu pottarnir stóðust ekki heilbrigðiskröfur

Birgir Olgeirsson skrifar
Kallað eftir tíðari þrifum á köldu pottunum á Austurlandi. Myndin er frá Neskaupstað sem tilheyrir Fjarðabyggð sem heyrir undir Heilbrigðiseftirlit Austurlands.
Kallað eftir tíðari þrifum á köldu pottunum á Austurlandi. Myndin er frá Neskaupstað sem tilheyrir Fjarðabyggð sem heyrir undir Heilbrigðiseftirlit Austurlands. Vísir/Einar
Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur farið fram á tíðari þrif á köldum kerjum við opinbera sundstaði á svæðinu. Þetta gerðu starfsmenn eftirlitsins eftir að könnun á baðvatni leiddi í ljós að flest þeirra sýna sem stóðust ekki kröfur voru úr köldum kerjum.

Niðurstaðan birtist í ársskýrslu Heilbrigðiseftirlits Austurlands sem birt var í vikunni. Þar kemur fram að af 61 baðvatnssýni sem tekið var á árinu 2018 þá stóðust 90 prósent sýnanna kröfur. Flest þeirra sýna sem féllu á prófinu árið 2018 voru sýni sem tekin voru úr köldum kerjum við opinbera sundstaði.

Samkvæmt breytingu sem gerð var árið 2017 á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum er ekki gerð krafa um hreinsibúnað eða sótthreinsun á kerjum sé hægt að ábyrgjast heilnæmi vatnsins á annan hátt. Til dæmis með miklu rennsli í gegnum þau.

„Vera má að auknar vinsældir kaldra baða kalli á sjálfvirkan hreinsibúnað. Standist sýni úr köldum kerjum ekki gæðakröfur, gerir heilbrigðiseftirlitið kröfu um að kerin séu tæmd og þrifin oftar, vilji rekstraraðili ekki setja klór í þau,“ segir í skýrslunni.

Lára Guðmundsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Austurlands, fer með eftirlit á sviði hollustuhátta. Hún segir stærri sundstaði farna að setja venjulegar sundlaugarsandsíur í köldu pottana ásamt klór.

Kaldir pottar eru víða á Íslandi en þeir sem eru á Austurlandi eru ekki með síu eða klórdælu og þarf því að hreinsa þá oftar. Þessi kaldi pottur tengist fréttinni ekki beint.Vísir/Vilhelm
Þannig er það þó ekki á Austurlandi enda köldu pottarnir ögn meiri nýlunda á svæðinu en annars staðar. Í mörgum tilvikum er um að ræða timburpotta og fiskikör við sundlaugarnar.

Sýnin eru tekin á sumrin þegar umferðin er sem mest í sundlaugarnar. Lára segir köldu pottana njóta síaukinna vinsælda á Austurlandi og því hafi staðan á vatninu í þeim versnað með aukinni umferð.

„Ég hef ekki gert kröfu um neitt nema að þrifin séu aukin á pottunum, að þeir séu tæmdir og þrifnir oftar í viku. En ég hef ekki farið fram á að það sé settur klór í þá,“ segir Lára í samtali við Vísi.

„Þetta eru það lágar tölur. Þær eru ekki að fara yfir mörk sem koma fyrir í náttúrulaugareglugerðinni. Það hefur sýnt sig að tíðari þrif duga til að halda þessu í skefjum,“ segir Lára.

Þegar sýni eru rannsökuð í baðvatni er heildargerlafjöldi skoðaður og þar á meðal hvort e-coli saurgerlar finnast.

Til að standast kröfur má magnið ekki ná einum, en það er algengasta magnið sem hefur fundist í köldu kerjunum á Austurlandi. Lára tekur fram að það sé mjög lágt, ef þeir færu upp í hundrað þá væri eitthvað óeðlilegt í gangi.

Í reglugerð um náttúrulaugar má magnið ná þúsund, sem er mun hærra en víða erlendis.

Lára nefnir að í Sundlaug Akureyrar sé kaldur pottur með sandsíu og klórdælu. Þannig sé það sömuleiðis víða á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×