Erlent

Eitt barn látið: Kona og þrjú börn fundust í sjónum við Noreg

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti Vísir/EPA
Uppfært 22:00



Lögreglan í Noregi fann í dag konu og þrjú stúlkubörn í sjónum við Fagereng í Tromsø. Eitt barnið er látið en konan og hin börnin tvö eru enn í lífshættu. Fjölmiðlar ytra segja þau öll hafa verið án lífsmarks þegar þau fundust. Vegfarandi hafði séð slóð frá barnavagni á ströndinni og út í sjó og lét lögreglu vita. Einnig fundust stígvél á ströndinni.

Lögregluþjónarnir sem komu fyrstir á vettvang syntu út í sjóinn og náðu konunni og stúlkunum að landi. Ekki er vitað hve lengi þær voru í sjónum.

Búið er að bera kennsl á fjórmenningana og eru þau erlendir ríkisborgarar. Þá er búið að láta ættingja þeirra vita. Konan mun vera á þrítugsaldri og stúlkurnar eru sagðar vera undir tíu ára aldri.

Lögreglan segist enn ekki geta sagt til um hvað hafi gerst og ekki hefur verið staðfest að konan sé móðir þeirra. Þó hefur lögreglan náð sambandi við faðir stúlknanna.

Stúlkan sem er dáin var, samkvæmt frétt VG, á grunnskólaaldri. Hinar stúlkurnar tvær verða fluttar á sjúkrahús í Osló.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar stóð að konan og börnin væru látin. Það var ekki staðfest en í upphafi kom einungis fram að þau hafi ekki sýnt lífsmark þegar þau fundust, endurlífgunartilraunir hafi verið reyndar og þau hafi verið flutt á sjúkrahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×