Erlent

Smitum fjölgar í Þýskalandi eftir tilslakanir

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum í Stuttgart gegn takmörkunum vegna faraldursins. Mótmælendurnir telja þær brjóta stjórnarskrárvarin réttindi þeirra um samkomu- og trúfrelsi.
Frá mótmælum í Stuttgart gegn takmörkunum vegna faraldursins. Mótmælendurnir telja þær brjóta stjórnarskrárvarin réttindi þeirra um samkomu- og trúfrelsi. Vísir/EPA

Lýðheilsustofnun Þýskalands segir að nýjum kórónuveirusmitum sé byrjað að fjölga aftur eftir að byrjað var að slaka á aðgerðum til að hefta útbreiðslu faraldursins. Mótmælendur hafa krafist þess að takmörkunum verði aflétt enn hraðar nú um helgina.

Tilkynnt var um tilslakanir á smitvarnaaðgerðum eftir fund Angelu Merkel kanslara og sambandslandsstjóra á miðvikudag. Leyft var að opna allar verslanir, skóla smám saman og atvinnumannadeildir í knattspyrnu fengu grænt ljós á að hefja deildarkeppnir sínar aftur.

Nú segir Robert Koch-lýðheilsustofnunin að smitstuðull kórónuveirunnar sé kominn yfir einn og nýjum smitum fari því fjölgandi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Til þess að halda faraldri í skefjum er miðað við að stuðullinn þurfi að vera undir einum. Fylgjast verði grannt með þróuninni næstu daga.

Sumir eru þó óþreyjufullir eftir að lífið komist aftur í fyrra horf. Þannig mótmæltu þúsundir manna takmörkunum vegna faraldursins og kröfðust þess að stjórnvöld afléttu þeim algerlega víða um landið í gær. Um þrjátíu manns voru handteknir fyrir utan Ríkisdaginn í Berlín fyrir að hlíða ekki fyrirmælum um félagsforðun. Öfgahægrihópar og samsæriskenningasinnar eru sagðir hafa tekið þátt í mótmælunum.

Þrátt fyrir að fjöldi smita í Þýskalandi sé sá sjöundi hæsti í heiminum hafa viðbrögð þýskra stjórnvalda við faraldrinum verið lofuð. Umfangsmikil skimun hefur farið fram og útgöngubann hefur leitt til þess að mun færri hafa látist í Þýskalandi en í öðrum Evrópulöndum. Nú hafa 7.395 látist og rúmlega 169.000 smit greinst.

Fjöldi ríkja er nú byrjaður að slaka á takmörkunum sem komið var á til að hefta útbreiðslu faraldursins, þar á meðal Ísland. Lýðheilsusérfræðingar hafa varað við því að farið verði of geist í að aflétta aðgerðum því þá sé hætta á að faraldurinn blossi upp aftur.


Tengdar fréttir

Leyft að opna allar verslanir í Þýskalandi

Öllum takmörkunum á verslanir sem hafa verið í gildi í kórónuveirufaraldrinum verður aflétt með samkomulagi sem þýska ríkisstjórnin hefur gert við sambandslandsstjórnirnar sextán. Félagsforðun verður áfram í gildi í annan mánuð en slakað verður á ýmsum þáttum hennar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×