Erlent

Slakað á sam­komu­banni víða í Evrópu en önnur bylgja far­aldursins mögu­lega að byrja í Kína

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það hafa verið fáir á ferli í París undanfarnar vikur líkt og víðast hvar annars staðar í Evrópu.
Það hafa verið fáir á ferli í París undanfarnar vikur líkt og víðast hvar annars staðar í Evrópu. Getty/Stephane Cardinale

Slakað verður á samkomubanni vegna kórónuveirunnar víða í Evrópu í dag en kínversk stjórnvöld hafa tilkynnt að önnur bylgja faraldursins gæti verið hafin þar í landi.

Þannig greindust fimm með veiruna í kínversku borginni Wuhan í Hubei-héraði um helgina en veiran á uppruna sinn í umræddri borg. Eru þetta fyrstu staðfestu tilfellin í borginni í meira en mánuð.

Þá hafa yfirvöld í Kína skilgreint borgina Shulan í Jilin-héraði sem hááhættusvæði eftir að fleiri en tíu manns greindust þar með veiruna. Í síðustu viku voru öll svæði landsins skilgreind sem svæði með lága smithættu.

Alls greindust sautján með veiruna í Kína um helgina, þar af voru sjö tilfelli þar sem ferðamenn komu smitaðir inn til landsins.

Á meðan yfirvöld í Kína fylgjast með hvort önnur bylgja faraldursins sé að hefjast þar í landi slaka yfirvöld í mörgum ríkjum Evrópu á samkomubanni sem verið hefur í gildi í um tvo mánuði.

Í fyrsta sinn í nærri átta vikur mega Frakkar til dæmis fara út að ganga án þess að hafa til þess tilskilið leyfi frá yfirvöldum. Þá munu grunnskólar opna sem og fataverslanir, hárgreiðslustofur og blómabúðir. Veitingastaðir, barir og kvikmyndahús verða hins vegar áfram lokuð.

Í Belgíu munu flest fyrirtæki opna á ný en með reglum um fjarlægðarmörk. Áfram verður lokað á börum, veitingastöðum og kaffihúsum.

Grunnskólar munu opna að hluta í Hollandi. Þar munu bókasöfn, ökuskólar, stofur sjúkraþjálfara og hárgreiðslustofur einnig opna.

Þá munu skólar opna í Sviss en með fjöldatakmörkunum í nemendahópum. Veitingastaðir, bókabúðir og söfn mega opna að nýju en með ákveðnum takmörkunum þó.

Í Englandi verður svo byrjað að slaka á þeim hömlum sem þar hafa verið vegna faraldursins í vikunni. Fólki verður leyft að stunda eins mikla líkamsrækt utan dyra og það lystir en Boris Johnson, forsætisráðherra, sætir þó nokkurri gagnrýni fyrir að vera frekar óljós og ruglandi í tali í ávarpi sínu til þjóðarinnar í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×