Skoðun

Hvað eru 50% af engu?

Sigþrúður Ármann skrifar

Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir tveimur stórum verkefnum. Annars vegar þarf að gera miklu betur þegar kemur að velferðar- og umhverfismálum. Hins vegar þarf að endurreisa efnahagslífið eftir heimsfaraldur.

Allir stjórnmálamenn eru sammála um að bæta þurfi heilbrigðisþjónustu, menntakerfið, stöðu aldraðra og öryrkja og gera betur í lofslagsmálum en munurinn felst í því hvernig eigi að fjármagna loforðin.

Vinstri menn vilja hækka skatta. Þeir vilja aukin ríkisumsvif og meiri afskipti af fólki og fyrirtækjum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill auka verðmætasköpun með auknu frelsi einstaklinga og fyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn vill skapa spennandi tækifæri til framtíðar. Plægja jarðveginn til að fólk og fyrirtæki finni hjá sér hvata til að skapa verðmæti. Þannig stækkar hagkerfið og tekjur ríkisjóðs hækka án skattahækkana.

Þetta er einföld hagfræði.

Svo einföld að það er eiginlega hálf sérkennilegt að skrifa grein um hana. En staðreyndin er sú forystufólk á vinstrivængnum virðist ekki átta sig á því að með því að lama frumkvæði fólks og fyrirtækja lækka skatttekjur ríkisins. Hærri skattar af minna hagkerfi skila engu. 50% af engu er núll.

Þegar þetta sama forystufólk lofar því að auka útgjöld um tugi og jafnvel hundruð milljarða og segist ætla að fjármagna þau með skattahækkunum og lántökum verður að benda á hið augljósa:

Eina leiðin til að efla velferðarkerfið án þess að gera Ísland gjaldþrota er aukin verðmætasköpun!

Loforð okkar sjálfstæðisfólks er að þið, fólk og fyrirtæki, fáið svigrúm til að búa til miklu meiri verðmæti á næsta kjörtímabili. Þannig getum við fjármagnað það sem þarf til að Ísland verði örugglega land tækifæra og velferðar.

Höfundur skipar 6. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×