Sport

Martröð bandarísku stjörnunnar hættir ekki

Sindri Sverrisson skrifar
Mikaela Shiffrin, niðurdregin eftir að hafa fallið úr keppni í dag.
Mikaela Shiffrin, niðurdregin eftir að hafa fallið úr keppni í dag. Getty/Alex Pantling

Bandaríska skíðastjarnan Mikaela Shiffrin féll í þriðja sinn úr keppni á Vetrarólympíuleikunum í Peking í dag og segist einfaldlega ekki geta gert sér í hugarlund hvað það er sem veldur.

Shiffrin hafði þegar fallið úr keppni í svigi og stórsvigi, þrátt fyrir að vera sigurstrangleg, en gullverðlaunin virtust enn á ný innan seilingar í alpatvíkeppninni í dag.

Hún stóð sig vel í bruninu og náði 5. sæti en í seinni hluta tvíkeppninnar, sviginu, þar sem Shiffrin virtist fyrir fram hafa yfirburði, hlekktist henni á.

Shiffrin hafði þegar lýst fyrri tveimur tilraunum sínum til að ná verðlaunum sem „mistökum“ en ekki tókst henni að bæta úr því að neinu leyti í dag.

„Ég skil bara ekki hvað það er sem virkar ekki í þessum keppnum, sérstaklega í dag. Í stórsviginu og sviginu fannst mér ég kannski vera of áköf, eins og ég væri að reyna of mikið í stað þess að ná mínum takti. Í dag var ég mun yfirvegaðri,“ sagði Shiffrin.

Hún hafi alls ekki viljað halda aftur af sér í dag en á sama tíma gætt þess vel að fara ekki og geyst.

„Samt virkaði það ekki. Ég hef enga skýringu á því og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu ergilegt það er fyrir mig,“ sagði Shiffrin, greinilega miður sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×