Sport

Heimta að skautadrottningin unga verði dæmd í fjögurra ára bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kamila Valieva missir væntanlega út sín bestu ár vegna lyfjamálsins.
Kamila Valieva missir væntanlega út sín bestu ár vegna lyfjamálsins. Getty/Harry How

Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunin, WADA, hefur beðið Alþjóðlega íþróttadómstólinn, Court of Arbitration for Sport, að dæma rússnesku skautadrottninguna Kamilu Valievu í fjögurra ára keppnisbann.

Hin fimmtán ára gamla Valieva mætti mjög sigurstrangleg til leiks á Vetrarólympíuleikana í febrúar og byrjaði á því að hjálpa Rússum að vinna liðakeppnina í listhlaupi á skautum. Talað um að þarna væri undrabarn á ferð og hún sýndi það síðan á ísnum með stórglæsilegum æfingum.

Lofið og aðdáunin breyttist hins vegar snögglega þegar kom í ljós að Rússar hafi leynt jákvæðum niðurstöðum úr lyfjaprófi.

Eftir liðakeppnina fór að leka út að Valieva hefði fallið á lyfjaprófi fyrir leikana og það var gríðarleg pressa á henni í einstaklingskeppninni. Þar náði Valieva ekki að sýna sitt besta og komst ekki á pall. Það var mikil dramatík í kringum alla þessa keppni og gríðarlega fjölmiðlaathygli.

Fréttir meðal annars um það að þjálfarar hennar hefði gefið henni lyfjakokteil óaðvitandi og ýmislegt mjög gruggugt var greinilega í gangi á bak við tjöldin.

Eftir að lyfjahneykslið komst í fréttir þá var ákveðið að afhenda ekki verðlaunin fyrir liðakeppnina. Þau hafa enn ekki verið afhent.

Rússneska lyfjaeftirlitið var lengi með málið í vinnslu og svo lengi að menn hjá alþjóða lyfjaeftirlitsstofnuninni misstu þolinmæðina og sendu málið til alþjóðlega íþróttadómstólsins.

Í fréttatilkynningu frá CAS kemur fram að Wada verði dæmd í fjögurra ára bann frá 25. desember síðastliðnum og að öllum úrslitum hennar eftir það verði eytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×