Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn viðurkennir að hafa sparkað í konuna sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gregg Berhalter hefur verið þjálfari bandaríska landsliðsins frá árinu 2018 og undir hans stjórn komst liðið í sextán liða úrslit á HM í Katar.
Gregg Berhalter hefur verið þjálfari bandaríska landsliðsins frá árinu 2018 og undir hans stjórn komst liðið í sextán liða úrslit á HM í Katar. Getty/Richard Sellers

Gregg Berhalter, þjálfari bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta, er í fréttum vegna atviks sem gerðist fyrir mörgum áratugum síðan.

Hinn 49 ára gamli Berhalter viðurkenndi að hafa sparkað í eiginkonu sína þegar þau voru táningar.

Hann sætir nú rannsókn hjá bandaríska knattspyrnusambandinu.

Berhalter sagði frá því að á meðan á HM í Katar stóð hafi einstaklingur haft samband og hótað því að „taka hann niður“.

„Ég á engar afsakanir fyrir því sem gerðist þetta kvöld,“ sagði Gregg Berhalter.

Gregg og eiginkona hans Rosalind gáfu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau fóru yfir afdrifaríkt kvöld árið 1991.

„Við höfðum verið að hittast í fjóra mánuði þegar atvik varð sem átti eftir að móta framtíð okkar sambands,“ segir í yfirlýsingunni.

„Eitt kvöldið, þegar við vorum út á lífinu á hverfisbar, þá áttum við mikið rifrildi sem hélt áfram fyrir utan barinn. Það endaði á því að ég sparkaði í fætur hennar,“ segir Gregg Berhalter enn fremur í yfirlýsingu sinni.

Berhalter sagði líka fá því að Rosalind vildi ekkert með hann hafa eftir atvikið en sjö mánuðum síðar hittust þau aftur og komust í gegnum þetta.

Þau hafa verið saman síðan og héldu upp á 25 ára brúðkaupsafmæli um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×