Innlent

Segir borgina sýna gott fordæmi

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir nýja rammasamninginn fagnaðarefni.
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir nýja rammasamninginn fagnaðarefni. Samtök Iðnaðarins

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fagnar rammasamningi um aukna húsnæðisuppbyggingu og segir borgina sýna gott fordæmi. Formaður borgarráðs segir þetta stærsta skref sem hafi verið tekið í uppbyggingu húsnæðis í sögu borgarinnar. 

Rammasamningurinn, sem var undirritaður í gær af hálfu bæði ríkis og borgar kveður á um að á næstu 10 árum verði byggðar 16000 íbúðir í borginni, en fyrstu fimm árin verði byggðar 2000 íbúðir á ári. Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og verðandi borgarstjóri ræddi um samkomulagið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ótrúlega stór áfangi í gær. Sex mánuðum eftir kosningar þá erum við komin með samkomulag við innviðaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um það að tvöfalda áformin hér í reykjavík um húsnæðisuppbyggingu. Við erum að skuldbinda okkur til tíu ára að byggja 16000 íbúðir.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fagnar samkomulaginu og vonar að fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið.

„Við fögnum því mjög að fyrsta slíka samkomulagið hafi verið undirritað. Það er mjög ánægjulegt að sjá metnað Reykjavíkurborgar til þess að vera fyrst sveitarfélaga til þess að undirrita slíkt samkomulag við ríkið. Mér finnst þetta líka vera til marks um stefnubreytingu hjá borginni sem ég fagna mjög. Þetta er að sama skapi mikil hvatning fyrir önnur sveitarfélög að klára slíka samninga við ríkið þannig að uppbygging húsnæðis á næstu árum geti orðið í takt við þarfir almennings.“

En ræður byggingariðnaðurinn við þessar áætlanir?

„Iðnaðurinn er sannarlega klár í þetta verkefni og ég held að við öll hlökkum til þessarar uppbyggingar og ekki síður þess að það komist stöðugleiki á þennan markað sem er held ég gott fyrir alla aðila og ekki síst bara fyrir landsmenn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×