Fótbolti

Þrenna Di María skaut Juventus á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ángel Di María var hetja Juventus í kvöld.
Ángel Di María var hetja Juventus í kvöld. EPA-EFE/Mohamad Badra

Juventus, Sevilla og Sporting eru komin áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta.

Þremur af átta leikjum kvöldsins í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta er nú lokið. Eftir að gera 1-1 jafntefli við Nantes á heimavelli sínum í Torínó þá vann Juventus einstaklega sannfærandi 3-0 útisigur í kvöld og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum.

Ángel Di María kom Juventus yfir strax á 5. mínútu og hann tvöfaldaði forystuna stundarfjórðungi síðar með marki úr vítaspyrnu. Nicolas Pallois hafði gerst brotlegur innan teigs og fékk að líta rauða spjaldið að launum. Það var því í raun aldrei spurning hvort liðið færi áfram.

Di María fullkomnaði svo þrennu sína á 78. mínútu og sá endanlega til þess að vonir heimamanna um endurkomu hurfu. Lokatölur 0-3 og Juventus komið áfram.

Elías Rafn Ólafsson sat á varamannabekknum er Midtjylland tapaði 0-4 á heimavelli gegn Sporting frá Portúgal. Fyrri leik liðanna lauk einnig með 1-1 jafntefli.

PSV Eindhovan vann 2-0 sigur á Sevilla en þar sem gestirnir frá Andalúsíu unnu fyrri leikinn 3-0 þá fóru þeir áfram.

Bayer Leverkusen fór alla leið í vítaspyrnukeppni gegn Monaco en gestirnir frá Þýskalandi unnu 3-2 sigur í kvöld eftir að Monaco vann fyrri leikinn með sömu tölum. Í vítaspyrnukeppninni reyndist Leverkusen sterkari aðilinn og er komið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×