Fótbolti

Góður sigur hjá Roma og markaveisla í Berlín

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jose Mourinho gefur Gini Wijnaldum leiðbeiningar í leiknum gegn Real Sociedad í kvöld.
Jose Mourinho gefur Gini Wijnaldum leiðbeiningar í leiknum gegn Real Sociedad í kvöld. Vísir/Getty

Roma vann góðan 2-0 sigur á Real Sociedad í Evrópudeildinni í kvöld. West Ham náði í sigur til Kýpur í Sambandsdeildinni og það var boðið upp á markaveislu í leik Union Berlin og Saint-Gilloise.

Alls er sjö leikjum lokið í 16-liða úrslitum bæði Evrópu- og Sambandsdeildarinnar og fjölmargir leikir að hefjast á næstu mínútum.

Í Róm tóku heimamenn í Roma á móti Real Sociedad sem situr í fjórða sæti La Liga. Stephan El Shaarawy kom Roma yfir á 13.mínútu og var það eina mark fyrri hálfleiks. Staðan hélst 1-0 allt þar til þrjár mínútur voru eftir en þá skoraði Marash Kimbulla mark sem gæti reynst Rómverjum mikilvægt fyrir seinni leikinn.

Í Berlín var síðan boðið upp á markaveislu í leik Union Berlin og Saint-Gilloise. Victor Boniface kom heimamönnum yfir á 28. mínútu en Josip Juranovic jafnaði metin þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Það rigndi duglega í leik Union Berlin og Saint-Gilloise í Þýskalandi.Vísir/Getty

Gestirnir tóku síðan forystuna á 58.mínútu. Yorbe Vertessen skoraði þá með skoti úr vítateignum eftir hraða sókn. Tíu mínútum jafnaði Robin Knoche fyrir heimamenn en gestirnir voru ekki lengi að ná forystuna á ný með öðru marki Boniface.

Union Berlín tókst þó að bjarga andlitinu í lokin þegar Sven Michel jafnaði á 89.mínútu. Einvígið hnífjafnt fyrir seinni leik liðanna í Sviss.

Í Þýskalandi vann Bayer Leverkusen loks 2-0 sigur á Ferencvaros með mörkum Karim Demberay og Edmond Tapsoba.

West Ham í góðri stöðu

Á Kýpur náði West Ham í 2-0 sigur gegn AEK Larnaca í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar. Michael Antonio skoraði bæði mörk West Ham í fyrri hálfleiks sem er því í ansi þægilegri stöðu fyrir síðari leikinn í London í næstu viku.

Í Belgíu gerðu Anderlecht og Villareal 1-1 jafntefli. Gestirnir komust yfir á 28. mínútu með marki Manu Trigueros en Anders Dreyr jafnaði fyrir Anderlecht í síðari hálfleiknum.

Að lokum tóku Íslandsvinirnir í Sheriff Tiraspol á móti Nice á heimavelli sínum í Moldavíu en liðið mætti einmitt Val í undankeppni Evrópudeildarinnar fyrir nokkrum árum.

Í þeim leik kom aðeins eitt mark. Það skoraði Ayoub Amraoui fyrir Nice undir lok fyrri hálfleiksins.

Seinni leikir beggja keppna fara fram að viku liðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×