Erlent

Biðst af­sökunar á „skelfi­legu“ mynd­bandi af gleð­skap í Co­vid

Kjartan Kjartansson skrifar
Michael Gove, húsnæðismálaráðherra, segist skilja að fólk bregðist reitt við myndbandi sem sýnir íhaldsfólk skemmta sér í kórónuveirufaraldrinum.
Michael Gove, húsnæðismálaráðherra, segist skilja að fólk bregðist reitt við myndbandi sem sýnir íhaldsfólk skemmta sér í kórónuveirufaraldrinum. Vísir/EPA

Ráðherra Íhaldsflokksins baðst í dag afsökunar á myndbandi sem sýnir gleðskap í höfuðstöðvum flokksins á meðan strangt samkomubann var í gildi í kórónuveirufaraldrinu. Á myndbandinu sjást flokksmenn drekka og dansa á sama tíma og fólk gat ekki verið með ástvinum á dánarbeði vegna takmarkananna.

Dagblaðið Mirror birti myndbandið en það hafði áður komist yfir og birt ljósmyndir úr sama samkvæmi. Það var haldið í höfuðstöðvum Íhaldsflokksins í London í desember árið 2020. Bretum var þá bannað að koma saman innandyra til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í myndbandinu heyrist maður segja að það sé allt í lagi að taka upp, svo lengi sem myndefninu sé ekki streymt á netinu „að við séum að sveigja reglurnar“. Á meðal þeirra sem voru viðstaddir gleðskapinn var Shaun Bailey sem var þá í framboði til borgarstjóra London. Hann sést þó ekki á myndbandinu.

Lögreglan rannsakaði viðburðinn eftir að myndir frá honum voru birtar en enginn var sektaður. Íhaldsflokkurinn segist hafa refsað þátttakendum í samkvæminu á sínum tíma.

Engu að síður sagðist Michael Gove, húsnæðismálaráðherra, harma myndbandið í dag. Honum kæmi ekki á óvart að fólk brygðist reitt við því að sjá það.

„Þetta er skelfilegt. Mér finnst þetta alls ekki við hæfi. Ég vil bara biðja alla afsökunar, í raun og veru,“ sagði Gove við Sky News í dag.

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði af sér sem þingmaður í síðustu viku eftir að þingnefnd komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið óheiðarlegur í svörum um veisluhöld íhaldsfólks í faraldrinum. Þá hefði hann tekið þátt í að ógna og grafa undan þingmönnum sem rannsökuðu þau.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×