Innlent

Enn við höfn nokkrum mánuðum eftir að hafa strandað

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Wilson Skaw er enn ekki tilbúið til langferðar.
Wilson Skaw er enn ekki tilbúið til langferðar. Vísir/Arnar

Flutninga­skipið Wil­son Skaw sem strandaði á Húna­flóa í apríl er enn í höfn við Akur­eyri. Skipið verður dregið úr landi á næstu dögum en ekki verður gert að fullu við skipið fyrr en það er komið úr landi.

Jóhannes Antons­son, stað­gengill hafnar­stjóra á Akur­eyri, segir í sam­tali við Vísi að Wil­son Skaw sé enn ekki að fullu sjó­fært. Skipið verði því dregið úr landi og til þess þurfi rétta tegund af dráttar­bát.

Skipið strandaði við Ennis­höfða í Húna­flóa þann 18. apríl síðast­liðinn þar sem það var á leið frá Hvamms­tanga til Hólma­víkur. Það er um 4.000 brúttó­tonn og 113 metra langt. Um borð voru um tvö þúsund tonn af salti og 195 tonn af olíu.

„Það hefur staðið yfir vinna undan­farnar vikur og mánuði við að laga það sem laga þarf áður en það fær að fara og tryggja að það sé alveg örugg­lega sjó­fært,“ segir Jóhannes sem kveðst ekki vita hvert flutninga­skipið heldur.

Skipið siglir undir fána Barba­dos og var komið á flot af Land­helgis­gæslunni þremur dögum eftir að það strandaði, þann 21. apríl. Varð­skipið Freyja dró skipið síðan úr Stein­gríms­firði og til Akur­eyrar þar sem það hefur verið síðan.

„Það hefur staðið yfir vinna við að tryggja að skipið fái til­skilin leyfi til þess að fara yfir hafið, það sé pott­þétt þétt og að engin olía leki frá því,“ segir Jóhannes sem segir veður­far ekki síst hafa spilað þátt í þeim tíma sem tekið hefur að koma skipinu úr landi.

„Bæði hefur verið beðið eftir hag­stæðu veðri en svo þarf líka að finna dráttar­bát til að gera þetta. Þetta er lík­lega langt ferða­lag og það tekur tíma að undir­búa það, fá leyfi og huga að ýmsu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×