Fótbolti

Dramatík hjá Svíum | Holland með mikil­vægan sigur á Portúgal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hollendingar fagna.
Hollendingar fagna. FIFA

Tveimur af þremur leikjum dagsins á HM kvenna í knattspyrnu er nú lokið. Svíþjóð skoraði dramatískt sigurmark í uppbótartíma gegn Suður-Afríku og Holland vann gríðarlega mikilvægan 1-0 sigur á Portúgal.

Hildah Magaia kom S-Afríku yfir í upphafi síðari hálfleiks en Fridolina Rolfö, leikmaður Barcelona, jafnaði metin á 65. mínútu. Það var svo Amanda Ilestedt, leikmaður París Saint-Germain í Frakklandi, sem tryggði sigurinn í uppbótartíma.

Lokatölur 2-1 og Svíþjóð stekkur því á topp G-riðils þar sem Ítalía og Argentína hafa ekki enn hafið leik.

Sigur sem gæti skipt öllu máli

Fyrir leik Hollands og Portúgal var vitað að þetta gæti verið sá leikur sem myndi skera úr um hvort liðið færi á endanum áfram í 16-liða úrslit. Holland, sem er án eins besta framherja í heimi – Vivianne Miedema, vann 1-0 sigur sem var síst of stór. Portúgal gat lítið sem ekki neitt og bauð upp á xG (í. vænt mörk) upp á 0.10.

Sigurmarkið skoraði Stephanie van der Gragt á 13. mínútu leiksins og sá til þess að Holland er nú með þrjú stig líkt og Bandaríkin í E-riðli. Portúgal og Víetnam eru án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×