Enski boltinn

Úr stálinu í Sheffi­eld í sólina í Los Angeles

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skiptir rigningunni í Englandi út fyrir sólskin í Los Angeles.
Skiptir rigningunni í Englandi út fyrir sólskin í Los Angeles. George Wood/Getty Images

Goðsögnin Billy Sharp hefur ákveðið að kalla þetta gott á Englandi eftir hrikalega farsælan feril og færa sig um set. Hann yfirgaf Sheffield United í sumar og hefur nú samið við LA Galaxy í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Hinn 37 ára Sharp þekkir eflaust hvert mannsbarn sem hefur horft á enska boltann undanfarin ár. Frægastur er hann fyrir veru sína í Stálborginni Sheffield en hann hefur einnig spilað fyrir Rushden & Diamonds, Scunthorpe United, Doncaster Rovers, Leeds United, Southampton, Reading og Nottingham Forest.

Sharp er markahæsti leikmaður í sögu ensku B-deildarinnar með 130 mörk í 399 leikjum. Alls hefur hann skorað 266 mörk og gefið 75 stoðsendingar í 691 leik á ferlinum.

Hann og hans stóra markanef færa sig nú til Bandaríkjanna þar sem hann mun stefna á að hjálpa LA Galaxy í baráttunni sem framundan er er en liðið hefur aðeins skorað 25 mörk í 22 leikjum á leiktíðinni. Samningur Sharp í borg englanna gildir út núverandi tímabil með möguleika á árs framlengingu.

Framherjinn hefur aldrei spilað utan Englands en fetar nú í fótspor David Beckham, Robbie Keane, Ashley Cole og Steven Gerrard sem fóru allir og spiluðu með Galaxy undir lok ferilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×