Fótbolti

Maguire fer ekki fet og býst við að fá nóg af tæki­færum hjá Man Utd

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Maguire verður áfram í herbúðum Manchester United.
Harry Maguire verður áfram í herbúðum Manchester United. Tim Clayton/Corbis via Getty Images

Harry Maguire, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, er ekki á förum frá félaginu. United hafði samþykkt að selja leikmanninn til West Ham, en nú er orðið ljóst að ekkert verður af þeim vistaskiptum.

Sky Sports greinir frá þessu, en West Ham hafði samþykkt að greiða þrjátíu milljónir punda fyrir leikmanninn. Í gær var hins vegar greint frá því að samningaviðræður Maguire og West Ham væru að sigla í strand, en þó væri ekki útilokað að þráðurinn yrði tekinn upp á ný.

Nú greinir Sky Sports hins vegar frá því að samningaviðræður milli leikmannsins við West Ham séu endanlega farnar í vaskinn. Heimildarmenn Sky segja frá því að samkomulag milli Maguire og West Ham hafi í raun aldrei verið í höfn og að ferlið hafi verið styttra á veg komið en talið var í fjölmiðlum.

„Harry Maguire ber virðingu fyrir West Ham og David Moyes, en til að hafa hlutina á hreinu þá var aldrei neitt samkomulag í höfn milli leikmannsins og félagsins,“ segir heimildarmaður Sky Sports.

„Ferlið var mun styttra á veg komið en talið var í fjölmiðlum. Til að mynda hafði Harry aldrei rætt við David Moyes.“

„Harry líður vel hjá United. Hann elskar klúbbinn og hefur trú á því að hann fái nóg af tækifærum til að spila á tímabilinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×