Erlent

Loka hluta lengstu lestar­ganga heims í marga mánuði eftir slys

Atli Ísleifsson skrifar
Gotthard-göngin voru opnuð árið 2016 og eru um 57 kílómetra löng.
Gotthard-göngin voru opnuð árið 2016 og eru um 57 kílómetra löng. AP

Loka þarf Gotthard-járnbrautagöngunum í Ölpunum, þeim lengstu í heimi, í nokkra mánuði eftir að sextán vagnar vöruflutningalestar fóru út af sporinu þannig að átta kílómetra kafli teinanna skemmdust inni í göngunum.

Frá þessu greindu talsmenn svissneskra samgönguyfirvalda í gær. Gotthard-göngin voru opnuð árið 2016 og þykja mikið verkfræðilegt afrek, en göngin eru um 57 kílómetra löng og eru að finna í Ticono-héraði í suðurhluta Sviss.

Guardian segir frá því að lestarfarþegar munu því fara gömlu, lengri en fallegri leiðina til að komast á milli norður- og suðurhluta Sviss næstu mánuðina á meðan unnið sé að lagfæringum.

Talsmenn samgönguyfirvalda segja að enginn hafi slasast en að skemmdir séu umtalsverðar. Vonast sé til að hægt verði að opna fyrir umferð vöruflutninga á næstu dögum en að ljóst sé að margir mánuðir séu í að umferð farþegalesta geti hafist á ný.

Göngin ollu straumhvörfum þegar þau opnuðu árið 2016 en samkvæmt tölum svissneskra yfirvalda fara um tveir þriðjuhlutar vöruflutninga yfir Alpana í gegnum Gotthard-göngin. Um sautján ár tók að bora og klára göngin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×