Enski boltinn

For­est kvartar vegna dómaranna á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Forest voru ekki sáttur með Stuart Attwell, dómara.
Leikmenn Forest voru ekki sáttur með Stuart Attwell, dómara. Stu Forster/Getty Images

Nottingham Forest hefur sent inn kvörtun til dómarasambands, PGMOL, Englands vegna dómaranna í 3-2 tapi liðsins gegn Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi.

Gestirnir frá Nottingham komust 2-0 yfir þegar innan við fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Heimamenn sneru dæminu sér í vil og unnu 3-2 sigur. Sigurmarkið skoraði Bruno Fernandes úr vítaspyrnu en skömmu þar á undan hafði Joe Worrall, fyrirliði Forest, fengið rautt spjald.

Steve Cooper, þjálfari Forest, sagðist þurfa að bíta í tunguna á sér er hann ræddi Stuart Attwell, dómara leiksins, við fjölmiðla að leik loknum. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, um málið voru töluvert fleiri dómar sem Forest voru óánægðir með heldur en aðeins rauða spjaldið og vítaspyrnan.

Attwell sendi Worrall af velli fyrir að toga í Fernandes sem var í þann mund að sleppa í gegn. Fékk rauða spjaldið fyrir að vera aftasti maður en Forest vill meina að Willy Boly hafi verið nægilega nálægt til að það sé hægt að deila um hvort Fernandes hafi verið sloppinn í gegn.

Vítaspyrnan var svo dæmd þegar Danilo felldi Marcus Rashford sem var á fleygiferð framhjá honum en Forest vill meina að um litla snertingu hafi verið að ræða. Í bæði skiptin skoðaði Robert Jones, myndbandsdómari leiksins, atvikið og var sammála ákvörðunum Attwell.

Dómarar á Englandi hafa átt undir högg að sækja í upphafi tímabils og virðist þolinmæði almennings gagnvart myndbandsdómgæslunni, VAR, á þrotum. Sama má segja um mörg lið deildarinnar og er þetta enn eitt dæmið um það.


Tengdar fréttir

Lét vin­skap við dómara hafa á­hrif á notkun VAR

Mike Dean er hættur að dæma en 28 ára ferli hans lauk eftir síðasta tímabil. Hann hefur nú viðurkennt að vinskapur hans við annan dómara kom í veg fyrir afskipti myndbandsdómara í leik í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×