Fótbolti

Mamma Ru­bi­a­les út­skrifuð af spítala eftir hungur­verk­fallið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luis Rubiales er forseti spænska knattspyrnusambandsins.
Luis Rubiales er forseti spænska knattspyrnusambandsins. Vísir/Getty

Ángeles Béjar, mamma hins umdeilda forseta spænska knattspyrnusambandsins Luis Rubiales, hefur verið útskrifuð af spítala eftir að hafa verið lögð þar inn í kjölfar hungurverkfalls.

Béjar var lögð inn í gærkvöldi eftir að hafa læst sig inni í kirkju á mánudaginn þar sem hún var í hungurverkfalli til að mótmæla þeirri meðferð sem sonur hennar hefur fengið undanfarna daga. Forsetinn Rubiales hefur verið sakaður um kynferðislegt áreiti eftir sigur spænska kvennalandsliðsins á HM og hefur hann verið settur í 90 daga bann frá afskiptum af knattspyrnu af FIFA.

Rubiales hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að hann smellti rembingskossi á Jenni Hermoso við verðlaunaafhendinguna eftir sigur Spánar. Hermoso hefur sagt að hún hafi ekki veitt samþykki fyrir kossinum, en Rubiales heldur þó öðru fram.

Ljóst er að gagnrýnin hefur tekið sinn toll af móður hans sem sagði að hungurverkfallið myndi halda áfram „ótímabundið, dag og nótt,“ er hún læsti sin inni í kirkjunni síðastliðinn mánudag. Hún bætti einnig við að meðferðin sem sonur hennar hafi mátt þola séu „ómannúðlegar og blóðugar nornaveiðar sem sonur hennar eigi ekki skilið.“

Prestur á svæðinu sem kynnti sig sem Faðir Antonio greindi svo frá því í samtali við Reuters-fréttastofuna að Béjar hafi verið flutt á spítala í heimabæ Rubiales á miðvikudagskvöldið. Béjar hefur þó verið útskrifuð af spítalanum og sást yfirgefa hann í fylgd sonar síns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×