Körfubolti

Giannis Antetokounmpo útilokar ekki að yfirgefa Bucks

Siggeir Ævarsson skrifar
Giannis Antetokounmpo flexar bísann. Kenyon Martin Jr. er ekki heillaður af góðu formi Giannis
Giannis Antetokounmpo flexar bísann. Kenyon Martin Jr. er ekki heillaður af góðu formi Giannis Vísir/Getty

Giannis Antetokounmpo hristi aðeins upp í NBA heiminum á dögunum þegar hann var gestur í hlaðvarpinu 48 minutes. Þar lét hann þau orð falla að ef hann ætti betri möguleika á vinna titilinn annarsstaðar yrði hann að taka honum.

„Ég er leikmaður Milwaukee Bucks, en fyrst og fremst er ég sigurvegari. Ef það er betri möguleiki á að landa Larry O'Brien bikarnum í boði annarsstaðar verð ég að taka þeim möguleika.“ - sagði Antetokounmpo sem landaði titlinum eftirsótta með Bucks 2021.

Þessi ummæli hafa valdið nokkrum titringi innan deildarinnar en Antetokounmpo er þó ekki talinn vera á leiðinni frá Bucks alveg á næstunni heldur sé hann að vísa til framtíðar. Hann er samningsbundinn Milwaukee Bucks út 2025 og getur framlengt samninginn um ár í viðbót ef hann svo kýs og tekið þá heim tæpar 52 milljónir dollara, fyrir skatta.

Khris Middleton, liðsfélagi Antetokounmpo, sagði þessar fréttir ekki koma honum úr jafnvægi í samtali við ESPN. Antetokounmpo væri einfaldlega einn besti leikmaðurinn í deildinni og hann vilji halda stjórn liðsins á tánum.

„Þetta hefur ekki áhrif á mig persónulega og ég held að þetta hafi ekki áhrif á okkur sem lið. Ég held að hann hafi sagt eitthvað svipað hvert einasta ár þegar samningaviðræður um framlengingu á samningnum hans eru framundan.“

Antetokounmpo er sjálfur að halda sér á tánum fyrir komandi tímabil en hann fetaði í fótspor leikmanna eins og LeBron James og Kobe Bryant og æfði með Houston Rockets goðsögninni Hakeem Olajuwon á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×