Lífið

Víkingur Heiðar fær fimm stjörnur frá The Guar­dian

Bjarki Sigurðsson skrifar
Víkingur Heiðar Ólafsson flutti verk Bach í London um helgina.
Víkingur Heiðar Ólafsson flutti verk Bach í London um helgina. Owen Fiene

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson fær fimm stjörnur frá gagnrýnanda The Guardian fyrir flutning sinn á Goldberg Variations eftir Johann Sebastian Bach. Hlaut Víkingur lófatak sem einungis rokkstjörnur fá segir gagnrýnandinn. 

Tónleikarnir fóru fram í Royal festival-salnum í London á föstudagskvöld. Clive Paget, gagnrýnandi The Guardian þegar kemur að klassískri tónlist, var í salnum og skrifaði um upplifunina. 

„Íslenski píanóleikarinn var með dáleiðandi nærveru við píanóið, grannur risi með höfuðið svo neðarlega að stundum virtist nefið hans nánast strjúka lyklana á nótnaborðinu,“ skrifaði Paget. 

Kveðst hann hafa farið í gegnum tilfinningaskalann allan á meðan Víkingur spilaði áður en hann hlaut standandi lófatak frá öllum í salnum. Segir Paget lófatakið hafa líkst því sem rokkstjörnur eiga að venjast, ekki píanóleikarar. 

Fékk Víkingur fullt hús stiga fyrir flutninginn, fimm stjörnur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×