Fótbolti

Þýski lands­liðs­þjálfarinn fjar­verandi á móti Ís­landi í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martina Voss-Tecklenburg ræðir við leikmenn þýska liðsins eftir að það datt úr leik í riðlakeppni HM í sumar.
Martina Voss-Tecklenburg ræðir við leikmenn þýska liðsins eftir að það datt úr leik í riðlakeppni HM í sumar. Getty/Elsa

Þýska kvennalandsliðið í fótbolta er í vandræðum þessi misserin og þetta er því góður tími fyrir íslensku stelpurnar að mæta þeim í Þjóðadeildinni. Liðin mætast í Bochum í dag.

Þýska liðið er ekki aðeins í vandræðum inn á vellinum því utan hans glímir landsliðsþjálfarinn við veikindi.

Martina Voss-Tecklenburg gat ekki stýrt liðinu á móti Dönum og hún verður heldur ekki við stjórnvölinn í leiknum á móti Íslandi í dag.

Aðstoðarkona hennar Britta Carlson mun stýra liðinu eins og í tapleiknum á móti Dönum. Carlson hefur hins vegar tekið það fram að hún vilji alls ekki taka við liðinu.

Þessi afstaða Carlson og óvissa um veikindi Voss-Tecklenburg þýðir að þýska liðið er svolítið í lausu lofti eins og sá í 2-0 tapi á móti Dönum fyrir nokkrum dögum. Íslenska liðið vann 1-0 sigur á Wales á sama tíma.

Þjóðadeildin er í raun barátta um sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári því sigurvegari hvers riðils á enn möguleika á að komast þangað. Tapið á móti Danmörku í fyrsta leik þýðir að þýska liðið verður helst að vinna íslensku stelpurnar í dag og pressan er mikil á þýska liðinu eftir ófarirnar á HM í sumar.

Þýska liðið vann vissulega 6-0 sigur í fyrsta leik á HM en náði bara einu stigi út úr síðustu tveimur leikjunum og sat því eftir í riðlinum.

Voss-Tecklenburg hefur verið landsliðsþjálfari frá árinu 2019 og árangurinn hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir sérstaklega í samanburði við fyrri ár. Silfrið á EM 2022 gaf þó von um að bjartari tímar væru í vændum og þess vegar voru vonbrigðin á HM í sumar enn meiri.

Hún er með samning til ársins 2025 og það er því óvissuástand í gangi á meðan ekki er vitað um alvarleika veikindanna og um hvort hún geti hreinlega snúið aftur á hliðarlínuna.

Leikur Þýskalands og Íslands hefst klukkan 16.15 og verður fylgst með honum í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×