Körfubolti

Kone kjálka­brotinn og lengi frá eftir högg frá Drungi­las: „Full­­­­mikið af því góða“

Aron Guðmundsson skrifar
Kevin Kone, nýr leikmaður Stjörnunnar verður frá í 6-8 vikur vegna meiðsla. Arnar Guðjónsson þjálfari liðsins segir meiðslin sem hrjá leikmannahóp liðsins núna vera fullmikið af því góða
Kevin Kone, nýr leikmaður Stjörnunnar verður frá í 6-8 vikur vegna meiðsla. Arnar Guðjónsson þjálfari liðsins segir meiðslin sem hrjá leikmannahóp liðsins núna vera fullmikið af því góða Vísir/Samsett mynd

Kevin Kone, nýr er­lendur leik­maður karla­liðs Stjörnunnar í körfu­bolta, missir af upp­hafi tíma­bils í Subway deild karla eftir að hafa kjálka­brotnað þegar Adomas Drungi­las, leik­maður Tinda­stóls, gaf honum oln­boga­skot í æfinga­leik liðanna á dögunum. Arnar Guð­jóns­son, þjálfari Stjörnunnar, segir meiðsli Kone bæta gráu ofan á svart fyrir liðið sem er ansi þunn­skipað þessa stundina.

„Hann er kjálka­brotinn og verður að öllum líkindum frá keppni í sex til átta vikur,“ segir Arnar um stöðuna á Kone sem féll til jarðar eftir oln­boga­skot frá Drungi­las, leik­manni Tinda­stóls í æfingar­leik liðanna á dögunum.

Klippa: Kevin Kone kjálkabrotnar eftir högg frá Drungilas

Að­spurður hvernig um­rætt at­vik horfir við honum vildi Arnar ekki gefa neitt upp varðandi það.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um það. Ég hef bara á­hyggjur af stöðunni hjá leik­manna­hópnum mínum með þessum meiðslum í ofan­á­lag. Það er það sem liggur beinast fyrir mér. Við erum núna með meiddan mið­herja og fleiri meidda leik­menn. Það er á­hyggju­efni. Við erum komnir svo­lítið djúpt á rót­eringuna hjá okkur.“

Á­hrifin fjar­vera Kone mun hafa á liðið séu ekki komin endan­lega í ljós.

„En við erum þunn­skipaðir í augna­blikinu. Hlynur hefur verið að glíma við smá meiðsli, Tómas Þór líka. Við þurftum að kalla til fjár­mála­stjóra fé­lagsins, Pálma Geir. Hann er byrjaður að æfa með okkur svo við séum með mann­skap í þetta.

Það bætti því gráu ofan á svart að missa Kevin Kone núna. Þetta er strákur sem er í fyrsta skipti í at­vinnu­mennsku. Vont fyrir hann að missa úr fyrstu mánuðina hjá okkur, sama hvort um verður að ræða einn eða tvo mánuði, á sínu fyrsta ári með okkur. Það er auð­vitað ekkert gott. Þetta bætist ofan á fleiri meiðsli hjá okkur. Dagur Kár er búinn að vera meiddur sem og Kristján Fannar. Þetta er full­mikið af því góða á meiðsla­listanum hjá okkur.“

En hvernig varð Kone við þegar að hann fær fréttirnar um al­var­leika meiðslanna?

„Hann var bara svekktur eins og allir í­þrótta­menn verða þegar að þeir fá svona fréttir. Þeim langar flestum að vera inn á vellinum. Auð­vitað er hann bara sár og svekktur með að vera ekki að fara hefja tíma­bilið með okkur en það er bara eins og það er.“

En þýða þessar vendingar að þið munið halda út á leik­manna­markaðinn í leit að styrkingu?

„Eins og staðan er í dag er fjár­hagurinn hjá deildinni þannig að við erum ekki að fara gera það. Mark­miðið, þegar að fjár­hags­á­ætlunin var sett saman, var að við mundum skoða að fá inn kana um ára­mótin. Það er enn þá planið. Meiðsli ein og sér fram­leiða ekki pening.“

En svona burt frá öllum þessum vondu fréttum sem ykkur berast. Það er stutt í mót, hvernig er stemningin hjá Stjörnunni fyrir komandi tíma­bili?

„Ég finn fyrir mikilli til­hlökkun hjá mínum mönnum fyrir því að vera fara aftur af stað. Það er búið að vera mjög gaman hjá okkur. Við fórum í æfinga­ferð til Barcelona og liðið hefur verið að slípast saman. Við litum á­gæt­lega vel út á köflum í æfinga­leiknum á móti Tinda­stól á dögunum þrátt fyrir að þunn­skipaðir.

Í öllum nei­kvæðu sem hafa verið að berast okkur felast líka já­kvæðir hlutir. Það eru ungir strákar sum munu núna vera meira í sviðs­ljósinu. Við erum með strák sem heitir Ás­mundur Múli. Hann er búinn að vera í kringum yngri lands­lið Ís­lands og nú bíður hans heljarinnar verk­efni sem ég er alveg viss um að hann geti gripið og hlaupið með. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×