Erlent

Í­búum og hjálparsam­tökum sagt að rýma norður­hluta Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maður syrgir barnungan frænda sinn á Al Shifa sjúkrahúsinu eftir árásir Ísraelsmanna á Gasaborg.
Maður syrgir barnungan frænda sinn á Al Shifa sjúkrahúsinu eftir árásir Ísraelsmanna á Gasaborg. epa/Mohammed Saber

Sameinuðu þjóðirnar segjast hafa fengið viðvörun frá Ísraelsher um að rýma norðurhluta svæðisins, það er að segja allt svæðið fyrir norðan Wadi Gaza.

Wadi Gaza er á sem skiptir Gasasvæðinu í norður og suður.

Rýmingin nær til allrar þjónustu á vegum Sameinuðu þjóðanna, starfsmanna og þeirra sem dvelja í aðstöðu á vegum alþjóðasamtakanna. Talsmaður framkvæmdastjórans António Guterres segir 1,1 milljón manns búa á svæðinu og að rýming muni hafa mannúðarkrísu í för með sér.

Skömmu eftir að Sameinuðu þjóðirnar greindu frá rýmingartilskipuninni birti herinn daglegt myndskeið en þar las talsmaður upp yfirlýsingu til íbúa Gasaborgar, þar sem þeir voru hvattir til að rýma öll svæði fyrir norðan Wadi Gaza.

Tilskipunin er talin ná til á bilinu 700 þúsund til milljón manna. 

Hamas-samtökin hafa hvatt íbúa til að hunsa tilskipanirnar og halda sig heima.

Á meðan talað var um næstu 24 klukkustundir í tilskipuninni til Sameinuðu þjóðanna fengu íbúar Gasaborgar engin ákveðin tímamörk. Talsmaður hersins sagði menn hins vegar gera sér grein fyrir að rýmingin myndi taka tíma.

Þá sagði að Hamas-samtökin ættu í stríði við Ísrael og að liðsmenn þeirra hefðust við í felum meðal íbúa Gasaborgar og væru að nota almenna borgara sem „mannlega skildi“. Á næstu dögum myndi Ísraelsher fara í umfangsmiklar aðgerðir í borginni en freista þess að forða íbúum frá skaða.

Anadolu-fréttaveitan segir gríðarlegan fjölda fólks þegar hafa leitað suður erfit til að verða við tilskipuninni. Íbúar séu ráðvilltir og afar hræddir. Margir virðist stefna að Al Shifa-spítalasvæðinu, þar sem fjöldi dvelur fyrir og öll rúm eru þegar full eftir árásir á flóttamannabúðirnar á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×