Körfubolti

Ný­liðar Þórs með ó­væntan sigur á topp­liði Kefla­víkur

Siggeir Ævarsson skrifar
Maddie Sutton fór fyrir Þórsurum í dag
Maddie Sutton fór fyrir Þórsurum í dag Vísir/Hulda Margrét

Keflvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik í Subway-deild kvenna í dag þegar nýliðar Þórs urðu fyrstar til að leggja toppliðið í hörkuleik á Akureyri.

Þórsarar lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik og þá sérstaklega í öðrum leikhluta, sem þær unnu 27-10. Staðan í hálfleik 54-36 en gestirnir frá Keflavík bitu hressilega frá sér í þriðja leikhluta, þar sem Þórsarar skoruðu aðeins tíu stig gegn 22.

Lokaleikhlutinn var jafn og spennandi en Keflvíkingum tókst ekki að brúa bilið þrátt fyrir að ná að minnka muninn í fjögur stig þegar best lét.

Maddie Sutton átti frábæran leik fyrir Þór en hún klikkaði ekki úr skoti utan af velli í tíu tilraunum. 26 stig frá Sutton í kvöld og tíu fráköst að auki og fimm stoðsendingar. Hjá gestunum var Daniela Wallen stigahæst eins og svo oft áður með 19 stig og bætti við 13 fráköstum.

Keflvíkingar halda toppsætinu en næstu lið hafa öll tapað tveimur eða þremur leikjum. Þórsarar fara upp að hlið Vals í 5. - 6. sæti, með fimm sigra og fjögur töp.

Þórsarar fá stutta hvíld eftir þennan sigur og halda í Garðabæinn á þriðjudag þar boðið verður upp á slag tveggja sterkra nýliða en Keflvíkingar eiga leik daginn þar sem liðið tekur á móti grönnum sínum úr Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×