Innlent

Graf­alvar­legt að Höskuldur hafi reynt að villa um fyrir nefndinni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigurður Örn Hilmarsson er formaður Lögmannafélags Íslands.
Sigurður Örn Hilmarsson er formaður Lögmannafélags Íslands.

Formaður Lögmannafélagsins segir grafalvarlegt að lögmaður hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöðu úrskurðanefndar með því að veita henni villandi upplýsingar. Hann kannast ekki við að annað slíkt hafi gerst á síðustu árum. 

Lögmaður var á dögunum áminntur af úrskurðarnefnd lögmannafélags Íslands fyrir að halda eftir fjármunum erfingja dánarbús sem hann var skiptastjóri yfir.

Í úrskurði nefndarinnar segir meðal annars að lögmaðurinn, sem samkvæmt heimildum fréttastofu er Höskuldur Þór Þórhallsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hafi viljandi reynt að villa fyrir nefndinni og þannig reynt að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélagsins, segist líta málið alvarlegum augum.

„Ég kannast ekki sjálfur við dæmi þess að lögmenn veiti úrskurðarnefndinni villandi upplýsingar. Ég get ekki útilokað að það hafi gerst. Það hefur alla vega verið vel fyrir mína tíð. Það á ekki að gerast, ég lít á það mjög alvarlegum augum og finnst raunar algjörlega óþolandi,“ segir Sigurður.

Hann telur að einhverskonar mistök hafi valdið því að lögmaðurinn hélt fjármununum eftir, frekar en að hann hafi haft eitthvað illt í huga.

„Þarna er um að ræða mistök af hálfu lögmannsins að standa ekki skil á erfðafjárskatti fyrir hönd dánarbúsins hvar hann var skipaður skiptastjóri. Því miður hefur þetta komið upp áður. Það gilda strangar reglur um störf lögmanna, bæði í lögum, siðareglum og svo eru sérstakar reglur um meðferð fjármuna á fjárvörslureikningum okkar því lögmönnum er treyst fyrir annarra manna fé,“ segir Sigurður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×