Enski boltinn

Vara­mennirnir tryggðu Leeds sigur í toppslagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Archie Gray og Daniel James komu við sögu í kvöld.
Archie Gray og Daniel James komu við sögu í kvöld. George Wood/Getty Images

Leeds United gerði sér lítið fyrir og lagði Leicester City í uppgjöri toppliða ensku B-deildarinnar. Bæði lið ætla sér beint aftur upp í ensku úrvalsdeildina.

Eftir tap gegn Middlesbrough í síðustu leik ætluðu gestirnir frá Leicester að snúa bökum saman og auka forystu sína á toppi deildarinnar. Það virtist ætla að ganga upp þegar belgíski miðvörðurinn Wout Faes kom Refunum yfir eftir stundarfjórðung. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks en í þeim síðari sýndu heimamenn gestunum hvar Davíð keypti ölið.

Staðan var enn 0-1 þegar ellefu mínútur lifðu leiks en Daniel Farke, þjálfari Leeds, hafði sett þá Daniel James, Patrick Bamford og Connor Roberts inn á. Það átti heldur betur eftir að skila sér.

Roberts jafnaði metin þegar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Ungstirnið Archie Gray, fæddur árið 2006, kom Leeds yfir þremur mínútum síðar og Daniel James gulltryggði sigurinn þegar hann lagði upp mark Patrick Bamford þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Lokatölur 3-1 og Leeds nú með 72 stig í 2. sæti, sex stigum minna en topplið Leicester þegar bæði lið eiga 12 leiki eftir. 

Ipswich er með 69 stig og á leik til góða á toppliðin tvö. Sömu sögu er að segja af Southampton sem er með 67 stig. Efstu tvö liðin fara beint upp í ensku úrvalsdeildina á meðan liðin í 3. til 6. sæti fara í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×