Fótbolti

ÍA kom sér á toppinn og Blikar halda í vonina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Blikar eiga enn séns á að komast upp úr riðlinum í Lengjubikarnum.
Blikar eiga enn séns á að komast upp úr riðlinum í Lengjubikarnum. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

ÍA vann sterkan 1-2 sigur er liðið heimsótti Leikni Reykjavík í riðli 4 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Á sama tíma gerðu Breiðablik og Vestri 1-1 jafntefli í riðli1.

Það var Steinar Þorsteinsson sem kom ÍA í forystu gegn Leikni strax á sjöttu mínútu áður en Shkelzen Veseli jafnaði metin fyrir Leiknismenn tuttugu mínútum síðar.

Varamaðurinn Árni Salvar Heimisson tryggði Skagamönnum svo sigurinn með marki á 51. mínútu, lokatölur 1-2.

Með sigrinum kom ÍA sér í toppsæti riðils 4, en liðið er með tíu stig, einu stigi meira en Víkingur sem situr í öðru sæti. Leiknismenn sitja hins vegar í fjórða sæti með sjö stig.

Á sama tíma gerðu Breiðablik og Vestri 1-1 jafntefli þar sem Pétur Bjarnason kom Vestra yfir snemma í síðari hálfleik. Stuttu síðar voru tveir úr liði Vestra hins vegar sendir í sturtu með rautt spjald, en það voru þeir Morten Ohlsen Hansen, leikmaður Vestra, og Vladan Dogatovic, aðstoðarþjálfari.

Blikar nýttu sér liðsmuninn og Kristófer Ingi Kristinsson jafnaði metin með marki úr víaspyrnu á 86. mínútu og þar við sat.

Breiðablik situr nú í þriðja sæti riðils 1 með sjö stig eftir fjóra leiki, en Vestri situr sæti neðar með tvö stig. Breiðablik á enn möguleika á að komast upp úr riðlinum, en liðið mætir Keflavík í hreinum úrslitaleik um sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×