Enski boltinn

Klopp skaut niður sögu­sagnir: „Hann er ekki heimskur“

Aron Guðmundsson skrifar
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool Vísir/Getty

Jur­gen Klopp, knatt­spyrnu­stjóri Liver­pool var spurður út í sögu­sagnir á blaða­manna­fundi í dag þess efnis að nýr fram­kvæmda­stjóri knatt­spyrnu­mála hjá fé­laginu, Michael Edwards hafi beðið hann um að halda á­fram sem knatt­spyrnu­stjóri Liver­pool að loknu yfir­standandi tíma­bili. Þjóð­verjinn, sem hefur gefið það út að yfir­standandi tíma­bil sé hans síðasta hjá Liver­pool, var fljótur að skjóta þær sögu­sagnir niður.

Greint var frá ráðningu Edwards til Liverpool í gær og snýr hann aftur til félagsins eftir að hafa hætt sem yfirmaður knattspyrnumála hjá því árið 2022. 

Edwards kemur á ný inn í hlutina hjá Liverpool á tímapunkti þar sem að Klopp hefur nú þegar gefið það út að yfirstandandi tímabil sé hans síðasta sem knattspyrnustjóri félagsins. 

Fljótlega fóru af stað sögusagnir í breskum miðlum þess efnis að eitt af fyrstu verkum Edwards í nýju starfi hjá Liverpool hafi verið að reyna að sannfæra Klopp um að halda áfram sem knattspyrnustjóri félagsins fram yfir þetta tímabil.

Miðað við svar Klopp, á blaðamannafundi fyrr í dag fyrir leik liðsins í Evrópudeildinni á morgun, virðast þær sögusagnir úr lausu lofti gripnar.

„Nei. Hann er ekki heimskur,“ svaraði Klopp aðspurður um meinta beiðni Edwards. „Þetta var ekki til umræðu. Gætu þið ímyndað ykkur að ég myndi draga í land með þetta núna? Ég tek ekki svona ákvarðanir nema að vel ígrunduðu máli,“ svaraði Klopp sem er ánægður með endurkomu Edwards til félagsins. Þeir hafi átt gott samstarf á sínum tíma. 

„Nú er hann mættur aftur. Ég er ánægður með það. Ég vil sjá félagið vera á eins mögulega góðum stað og hægt er. Þetta er frábær lausn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×